Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 13. árgangur - 2013

Svavar Steinarr Guðmundsson: Bræðrabylta. Af karlfauskunum Þórði Sigtryggssyni og Tómasi Jónssyni
 
Þórður Sigtryggsson (1890–1965) skildi eftir sig drög að handriti þegar hann lést sjötíu og fimm ára aldri. Þórður hafði unnið handritið, sem ber heitið Mennt er máttur: Tilraunir með dramb og hroka, með hjálp rithöfundarins og góðvinar síns Elíasar Mar sem fullvann það svo að Þórði látnum. Mennt er máttur er öðrum þræði pólitískt ádeilurit en Þórður deilir hart á íslenskt þjóðfélag og menningu og er það því háð ákveðnu menningarsögulegu samhengi. Róttæk afstaða og gagnrýni Þórðar á íslenskt þjóðfélag og menningu færir hann sumpart á stall með eftirstríðskynslóðinni og ’68–kynslóðinni. Verkinu svipar enn fremur til eins af lykilverum sjöunda áratugarins, Tómasar Jónssonar: metsölubókar eftir Guðberg Bergsson. Verkin eiga það ekki aðeins sameiginlegt að vera stefnt gegn valdaformgerð aldamótakynslóðarinnar. Þau sýna einnig hvernig tveir einstaklingar af sömu kynslóð bregðast mismunandi við nútímasamfélagi. Líkindi verkanna eru svo greinileg að spyrja má hvort Guðbergur hafi verið undir (beinum?) áhrifum frá Mennt er máttur þegar hann skrifaði Tómas Jónsson: metsölubók
 
Lykilorð: Þórður Sigtryggsson, Mennt er máttur. Tilraunir með dramb og hroka, Guðbergur Bergsson, Tómas Jónsson: metsölubók, Elías Mar, íslenskar nútímabókmenntir
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is