Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Sólveig Anna Bóasdóttir: Eitt, tvö, þrjú kyn. Þverfræðilegar hugleiðingar um óljóst kyn og óvenjulega líkama

Flókin tengsl menningar og líkama eru meginumfjöllunarefni greinarinnar. Hvati hennar eru nýleg lög um þriðja kynið í Þýskalandi þar sem heimilað er að bíða með ákvörðun um kynferði barna sem fá greininguna intersex við fæðingu. Fyrirbærið intersex er talið eiga við í 1,7 af hverjum eitt hundrað fæðingum og jafnframt að um það bil ein skurðaðgerð sé framkvæmd á móti hverjum tvö þúsund fæðingum. Intersex fólk hefur víða með sér samtök og krefst aukins sjálfsákvörðunarréttar um sín málefni. Menningarlegar hugmyndir og viðmið um að kyngervi og kynfærum megi breyta, og að sálfræði og læknisfræði séu verkfærin til þess, er meðal þess sem intersex samtök benda á að mikilvægt sé að endurskoða. Í greininni er varpað ljósi á tengsl hugmyndafræði gagnstæðukynjalíkansins og hugmynda um líkamann og eru greiningarhugtökin kyngervi og kynvitund m.a. notuð til að rýna í þau tengsl. Hugmyndir um kyngervi mótuðust í nánum tengslum við rannsóknir á intersex börnum upp úr miðri síðustu öld en höfðu fljótlega áhrif á fleiri fræðigreinar, þ.á m. kynjafræði og sálfræði. Innan læknisfræði höfðu hugmyndirnar um hið mótanlega kyngervi, ásamt hugmyndafræði gagnstæðukynjalíkansins, áhrif á þann „praxis“ að í auknum mæli var farið að grandskoða kynfæri nýbura og lagfæra misfellur og hugsanleg óeðlilegheit. Í greininni er fyrst og fremst fjallað um hugmyndir menningarinnar um eðlileg og óeðlileg kynfæri og vísað þar til bæði austrænnar og vestrænnar menningar og trúarbragða. Hvatt er til að taumhaldsskylda sé jafnan höfð að leiðarljósi í þessum málum: Mikilvægast er alltaf að valda ekki skaða, sem segja má að sé einnig leiðarstjarna þýsku laganna um þriðja kynið. Ávinningur þýsku laganna um þriðja kynið er margþættur en fyrst og fremst sá að vekja áleitnar spurningar um gagnstæðukynjalíkanið og hið mótanlega kyngervi í menningu okkar.

Lykilorð: þriðja kynið, „intersex“, gagnstæðukynjalíkan, menningarleg kynjaviðmið, trúarbragðafræði

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is