Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Hrafnkell Lárusson: Dularfullur og forboðinn dauði – um viðhorf til sjálfsvíga á 17. og 18. öld

Sjálfsvíg hafa þekkst í samfélögum manna allt aftur til þess tíma sem elstu ritheimildir ná til – og líklega mun lengur. Viðhorf til sjálfsvíga hefur þróast og breyst í aldanna rás og mótast m.a. af trúarbrögðum og lagasetningum. Á sjálfsvígum hvílir dulúð og þau vekja spurningar en líka sterkar tilfinningar og jafnvel hörð viðbrögð. Á 17. og 18. öld gilti sú almenna regla í íslenskum lögum að sjálfsvegendur skyldi jarða utan kirkjugarðs og umgengni við líkamsleifar þeirra var önnur en gagnvart þeim sem létust vegna sjúkdóma, slysa eða annarra orsaka sem töldust eðlilegar. Á sjálfsvígum hvíldi forboð sem gat haft þungbærar afleiðingar fyrir eftirlifandi skyldmenni sjálfsvegenda, bæði samfélagslegar og fjárhagslegar. Þessi grein skiptist í tvo meginhluta auk niðurstöðukafla. Í fyrri hlutanum er fjallað um hvernig viðhorf til sjálfsvíga á Íslandi fyrr á öldum birtast í kristnum kenningum og útleggingum, í þjóðtrú og í þróun laga sem giltu um sjálfvíg. Í síðari hlutanum er greint frá niðurstöðum rannsóknar á skráðum sjálfsvígum í útgefnum annálum Hins íslenska bókmenntafélags (Annálar 1400-1800). Fjallað er um fjölda skráðra sjálfsvíga í annálunum, dreifingu þeirra á 17. og 18. öld, kynjaskiptingu sjálfsvegenda, greftrun þeirra o.fl. Áherslan er á hvaða atriði annálaritarar lögðu helst rækt við að skrá viðvíkjandi sjálfsvígum.

Lykilorð: Sagnfræði, sjálfsvíg, annáll, kristni, Ísland

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is