Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Anna Jóhannsdóttir: Staðinn að verki. Um málverkið sem snertiflöt tíma og rúms

Hin móderníska áhersla á sýnileika pensiltækni í málverki endurspeglar líkamlega verund listamannsins í heiminum, og kallar með sérstökum hætti á þann sem nemur verkið. Áhersluna á hið málaða yfirborð myndflatarins má rekja til þróunar í 19. aldar landslagsmálun. Viss þversögn er því fólgin í staðhæfingum um að samfara uppgangi módernisma á 20. öld, hafi jafnframt fjarað undan landslagsmálverkinu. Nánari athugun leiðir í ljós að landslagsmálun er frjór vettvangur til að grafast fyrir um deiglu módernisma í málverki. Í þessari grein er, með hliðsjón af málverkum eftir Jackson Pollock, Paul Cézanne og Svavar Guðnason, skyggnst eftir módernískum hræringum og þýðingu þeirra fyrir listamenn og viðtakendur verka þeirra. Þess er jafnframt freistað að rekja saman þræði í fræðiskrifum sem fjalla um tæknilega útfærslu í málverki, og þá einkum í landslags- og náttúrutengdum verkum. Einkum reynast skrif Charles Harrisons listfræðings um tengsl módernisma og nútímalegra landslagsmálverka og greining hans á díalektísku sambandi áhrifa (e. effects) og áhrifavalds (e. effectiveness), málverks og myndar, gagnleg í umræðu um sjónarhorn viðtakandans og mögulegar leiðir hans að málverkinu sem athafnasvæði í tíma og rúmi.

Lykilorð: Módernismi, málverk, landslag, pensiltækni, líkami, samhengisvísun

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is