Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Alda Björk Valdimarsdóttir: Líkami Jane. Ástin og ímyndin

 „Hvernig leit hún út?“ spyr Grosvenor Myer í upphafi ævisögu sinnar um Jane Austen. Mönnum hefur verið tíðrætt um útlit skáldkonunnar í ævisögum, fjölmiðlum og á netinu og hefur verið leitt að því líkum að þessi frumkvöðull ástarsögunnar hljóti að hafa verið ófríð vegna þess að hún giftist aldrei. Aðrir tína til áður óþekktar myndir sem sagðar eru af skáldkonunni og sýna hana í betra ljósi, eða gamlar myndir af henni eru „lagaðar til“. Umræðan vekur óneitanlega upp spurningar um stöðu listarinnar í ímyndarsamfélögum nútímans. Skiptir útlit rithöfunda máli þegar breyta á hugverkum þeirra í söluvöru? Snýst leitin að „réttu“ andliti Austen um það að marka henni fastan stað sem piparmeyju eða er dregin upp lýsing á henni sem einhleypum atvinnuhöfundi? Á tímum Austen-iðnaðar er stöðugt verið að endurmóta ímynd skáldkonunnar í ljósi sem er jafn breytilegt og lesendurnir eru margir.

Lykilorð: Jane Austen, höfundarímynd, ævisaga, andlitsmynd, piparmey

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is