Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Björn Þór Vilhjálmsson: Legofsi og hjónabandsmas. Vergirni, móðursýki og nútími í Straumrofi Halldórs Laxness

Lítt hefur verið fjallað um leikrit Halldórs Laxness í fræðilegri umræðu. En jafnvel í því ljósi verður fyrsta leikverk Halldórs, Straumrof, sem frumsýnt var 1934 af Leikfélagi Reykjavíkur, að teljast hornreka. Um verkið ríkir nær algjör þögn og það hefur aðeins verið sett upp tvisvar, og þá með fjörutíu ára millibili. Einhver kynni jafnvel að ætla að túlka mætti þögnina um Straumrof og fjarveru þess frá leiksviðinu sem nærgætni við Halldór og „veikburða“ leikrit hans. Þó bar svo við að þegar Leikfélag Reykjavíkur setti verkið á svið 1977 lýsti gagnrýnandi Tímans leikverkinu sem „stórkostlegu“ og sagði jafnframt að hér væri líklega á ferðinni „bezta leikrit sem Halldór Laxness hefur ritað um ævina.“ Gagnrýnandi Morgunblaðsins kallaði Straumrof hið „gleymda leikrit“ Halldórs og taldi það jafnframt „heilsteyptasta leikrit“ skáldsins.“ Ef hugað er að viðtökunum 1934 kemur jafnframt í ljós að lognmollan sem ríkt hefur um verkið er ekki í neinu samræmi við viðtökusögu þess. Óhætt er að segja að önnur eins hneykslunarhella hafi vart verið á borð borin fyrir reykvíska leikhúsáhugamenn, enda var verkið bannað börnum. Greinin gaumgæfir orðspor leikritsins í menningarlegu samhengi með sérstakri áherslu á viðtökurnar 1934 og bent er á að það hafi öðru fremur verið opinská umfjöllun verksins um kynverund kvenna, kynjapólitík og kynferðislegan unað sem „stuðaði“ leikhúsgesti og gagnrýnendur. Orðræðan sem einkenndi viðtökurnar mótaðist af tilraun til að sjúkdómsvæða kynhvöt aðalpersónunnar, Gæu Kaldan, en henni var lýst sem „sjúklega vergjarnri“ og „móðursjúkri“, svo dæmi séu nefnd, og greinin setur þessa umræðu í samhengi siðferðislegra, læknisfræðilegra og heimspekilegra vangaveltna karlkyns spekinga í gegnum aldirnar um áðurnefnda þætti í fari kvenna, kynhvöt þeirra og líkama. Þá er síðari hluti greinarinnar helgaður túlkun á leikritinu þar sem það er lesið sem sviðsetning á átökum milli hefðbundinna siðaformgerða og nútímavæðingar.

Lykilorð: Halldór Laxness, Straumrof, íslensk leiklist, íslensk bókmenntasaga, femínismi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is