Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Höskuldur Þráinsson: Málvernd, máltaka, máleyra – og PISA-könnunin

Í þessari grein er fyrst rifjuð upp sú skoðun að æskilegt sé að íslenska breytist sem hægast til þess að samhengið í málsögunni rofni ekki. Gengið er út frá því að þessi skoðun njóti mjög almenns fylgis og ekki er mælt á móti henni. Hins vegar er því haldið fram að þær aðferðir sem algengast er að beita í skólum og málfarsleiðbeiningum af ýmsu tagi til að varðveita þetta samhengi séu dæmdar til að mistakast. Ástæðan er sú að þær taka ekki mið af því hvernig börn tileinka sér móðurmálið. Rannsóknir á máltöku barna hafa nefnilega í fyrsta lagi sýnt að þau læra meginatriði málkerfisins að langmestu leyti án beinnar tilsagnar, þ.e.a.s. þannig að málið er „fyrir þeim haft“. Í öðru lagi hafa þær sýnt að máltakan fer í aðalatriðum þannig fram að börn tileinka sér almennar reglur sem þau byggja á því sem þau heyra í kringum sig. Þetta geta verið reglur um framburð, beygingu eða setningagerð. Af þessu leiðir að það er oft tilgangslítið og getur jafnvel verið skaðlegt að gera athugasemdir við einstök atriði sem eru orðin hluti af þessu „reglukerfi“ málnotenda. Í sumum tilvikum taka málnotendur ekkert mark á þessum athugasemdum af því að þær fara í bága við þær almennu reglur sem þeir hafa tileinkað sér. Í öðrum tilvikum getur afleiðingin orðið sú að athugasemdirnar eyðileggja það ómeðvitaða reglukerfi sem málnotendur hafa komið sér upp og verða til þess að þeir segja „tóma vitleysu“ eða verða óöruggir með málnotkun sína og jafnvel haldnir málótta. Þessi skoðun er studd ýmsum rökum og dæmum í greininni, en í lokin er lögð áhersla á mikilvægi þess að efla máltilfinningu, eða „máleyra“, barna og unglinga í skólum. Því er haldið fram að það verði ekki gert með athugasemdum við einstök atriði í málnotkun þeirra heldur t.d. með því að láta nemendur hlusta á stuttar frásagnir á góðu máli (þjóðsögur, gamansögur) og endursegja þær síðan skriflega eftir minni (skrifa endursagnir). Slík þjálfun myndi m.a. draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem dvínandi lestur getur haft á mál barna og unglinga, auka orðaforða, efla máltilfinningu, varðveita samhengið í málinu, bæta lesskilning og þar með skila sér í betri árangri í PISA-könnuninni margumræddu.

Lykilorð: málvernd, málkunnátta, máltaka, máleyra, brageyra, endursagnir, PISA-könnunin

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is