Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 14. árgangur - 2014

Edward H. Huijbens, Gunnar Þór Jóhannesson og Björn Þorsteinsson: Ylrækt rísómatískra sprota. Ferðaþjónusta í nýju ljósi

Þessi grein er unnin upp úr þremur erindum sem haldin voru í málstofu á Hugvísindaþingi við Háskóla Íslands vorið 2013. Málstofan var auglýst undir heitinu Iceland – Niceland – Disneyland: Frá verufræði til verkefna í ferðaþjónustu og snerist hún um hvort – og þá hvernig – ferðaþjónusta er óðum að breyta íslensku samfélagi í gegnum markaðssetningu á menningu og náttúru, ímyndasköpun og vörumerkjavæðingu. Í greininni er lagður grunnur að skilningi á ferðamennsku og ferðaþjónustu á grundvelli verufræðilegrar einhyggju og sérstaklega byggt á kenningum síð-formgerðarhyggju og skilningi frönsku fræðimannanna Deleuze og Guattari á rými og landslagi. Fjöldi myndlíkinga sýnir með hvaða hætti markaðssetning í ferðaþjónustu skapar seljanlega vöru úr náttúru og menningu Íslands; vöru upplifunar sem höfða skal til þrár væntanlegra neytenda, sem á sama tíma eru eitt með því sem um ræðir. Við teljum að þegar merking er toguð úr því sem kalla má óræðri mergð íslenskrar náttúru og landslags með þessum hætti getur það haft neikvæðar afleiðingar og bjagað skilning okkar á auðlindum ferðaþjónustu. Hér verður lögð áhersla á hvernig bregðast megi við með því að horfa á ferðaþjónustu sem ylrækt ótal sprota sem í eðli sínu vaxa ekki af einni rót heldur sem rótarhnyðjur (fr. rhizome).

Lykilorð: Ísland, ferðaþjónusta, ylrækt, Deleuze, síð-formgerðarhyggja, monism

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is