Útdráttur og lykilorð

 
Björn Þór Vilhjálmsson og Nökkvi Jarl Bjarnason: Frásögn eða formgerð? Tölvuleikir, leikjamenning og umbrot nýrrar fræðigreinar
 
Með þessari grein er ætlunin að skoða hvernig fræðilegur ágreiningur innan leikjafræðinnar hefur sett svip sinn á sviðið, bæði hvað fræðilegar áherslur varðar og mótun á þekkingarfræðilegum ramma. Skoðanaskiptin sem hér er vísað til snerust í grunninn um það hvort sögur væru innbyggður og nauðsynlegur hluti af leikjum eða tilfallandi og það væru í raun aðrir þættir sem einkenndu miðilinn. Spursmál þetta er þýðingarmeira en virðist í fyrstu og telja höfundar þessarar greinar að þau fræðilegu ágreiningsmál sem þarna komust í hámæli hafi haft áhrif á mótun sviðsins á hátt sem er enn greinanlegur þrátt fyrir að frásagnarspurningin sem slík hafi
að mörgu leyti horfið úr umræðunni. Að veði voru ekki aðeins hefðbundnar hugmyndir um frásagnir heldur í raun öll táknfræðileg vídd leikja og tengsl þeirra við félagslegan og sögulegan veruleika. Í þessari grein verða bæði sjónarmiðin tekin til umfjöllunar samhliða því að nýtt fræðasvið er kynnt til sögunnar. Rök verða jafnframt færð fyrir því að sem verk og textar séu leikir óaðskiljanlegir frá menningarlega skilgreindu túlkunarsamhengi.
 
Lykilorð: Tölvuleikir, leikjafræði, frásagnarfræði, fjölmiðlafræði, greinafræði
 
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is