Útdráttur og lykilorð

Björn Ægir Norðfjörð: Frá framúrstefnu til hátíðarmynda: Um skilgreiningarvanda kvikmyndarinnar í ljósi módernískra hefða
 
Merking hugtaksins módernismi er talsvert á reiki hvað varðar listir almennt en alveg sérstaklega þegar kemur að kvikmyndamiðlinum. Greinin dregur fram fjögur ólík viðmið sem einkenna flokkun og fræðilega umfjöllun um módernisma í kvikmyndum. Í fyrsta lagi þöglar frásagnarmyndir gerðar í Evrópu undir áhrifum myndlistarhreyfinga, einkum franski impressjónisminn, þýski expressjónisminn og sovéska myndfléttan. Í öðru lagi evrópskar framúrstefnumyndir frá þriðja áratugnum, gerðar af listamönnum kenndum við hreyfingar á borð við dada, súrrealisma og kúbisma. Í þriðja stað listræna frásagnarmyndin eins og hún þróaðist í Evrópu og Japan á sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Og loks alþjóðlega hátíðarmyndin sem auk þess að vera sýnd á kvikmyndahátíðum víða um heim er miðlað til áhorfenda á mynddiskum og tölvutæku formi. Í framhaldi veltir höfundur fyrir sér hvort viðmiðin fjögur séu með öllu ósamrýmanleg eða hvort þau geti átt heima saman undir hatti módernismans. Niðurstaðan er sú að sé sjálft módernisma-hugtakið skilið á sagnfræðilegum forsendum sé ómögulegt að sætta hin ólíku viðmið. Ef það er hins vegar skilið á fagurfræðilegum forsendum geta þau vel átt heima undir almennri skilgreiningu á módernisma með þeim fyrirvara þó að þau eldri tvö sæki einkum í forsögu myndlistar hans en þau yngri leiti fyrirmynda hjá bókmenntum.
 
Lykilorð: Framúrstefna, módernismi, kvikmyndahátíðir, listræna kvikmyndin, aðlögun
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is