Útdráttur og lykilorð

 
Guðni Elísson: Fúsk, fáfræði, fordómar? Vantrú, Háskóli Íslands og akademísk ábyrgð
Í febrúar 2010 kærðu trúleysissamtökin Vantrú trúarbragðafræðikennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd Háskóla Íslands fyrir kennsluhætti sína í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Í kærunni var horft framhjá fræðilegum forsendum námskeiðsins, en þess í stað settar fram óígrundaðar tilgátur um pólitískt og hugmyndafræðilegt samhengi glæranna sem félagið hafði undir höndum. Siðanefnd skólans gerði mistök í meðferð málsins sem leiddu til þess að því lauk ekki að fullu fyrr en rúmum tveimur og hálfu ári síðar í október 2012, þegar ný siðanefnd vísaði
kæru Vantrúar frá á þeirri forsendu að hún væri tilefnislaus. Höfundur telur að fjórar skýringar séu á hörkunni sem einkenndi gagnrýni Vantrúar. Í fyrsta lagi sé kæran byggð á þeirri pólitísku aðgerðaáætlun sem félagið starfi samkvæmt, þar sem miklu skipti að sýna fram á að trúleysi eigi undir högg að sækja. Í öðru lagi verði félagið til í kringum velskilgreind grunngildi og sjálfsmynd sem mótuð sé á hugmyndum um trúleysi. Í þriðja lagi sé tilgangurinn að skilgreina leyfilegt og óleyfilegt umræðusvið í trúarlífsgreiningu. Og að lokum hafi verið sótt svo fast fram í upphafi málsins að forsvarsmönnum Vantrúar hafi verið ómögulegt að vinda ofan af vitleysunni þegar skýringar voru lagðar fram og kennslan sett í sitt raunverulega akademíska samhengi. Málið veitir forvitnilega innsýn í aðferðafræði þrýstihópa, en vekur einnig áleitnar spurningar um sjálfstæði akademískra stofnana og rannsóknafrelsi háskólamanna. Málið varð að prófsteini fyrir akademískt frelsi, ekki þó í þeim skilningi að Bjarni Randver reyndi á þolmörk hins fræðilega eða viðurkennda í framsetningu sinni á efninu. Ábyrgðin sneri alfarið að Háskóla Íslands, en skólanum ber sem stofnun að standa vörð um viðurkennda akademíska kennsluhætti og skapa starfsmönnum sínum sem ákjósanlegast rannsóknaumhverfi.
 
Efnisorð: Trúleysishreyfingar, akademískt frelsi, aðgerðahyggja, Vantrú, trúarlífsfélagsfræði
 
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is