Útdráttur og lykilorð

 
Hjalti Hugason: Heiti sem skapa rými
 
Í greininni er fjallað um nauðsyn þess að gaumgæfa þau heiti sem viðhöfð hafa verið í rannsóknum á trúmálahræringum hér á landi og í norðanverðri Evrópu á 16. öld og þá einkum þeim sem rekja má til Marteins Lúthers. Bent er á hvernig almenn „regnhlífarheiti“ eins og „sið(a)skipti“ og „sið(a)bót“ hafa verið notuð allt fram undir þetta yfir þessar hræringar og vakin athygli á að sérhæfðari sagnfræðirannsóknir
á síðari tímum kalla á fjölgreindari orðnotkun. Rakin er þróun þeirra heita sem viðhöfð hafa verið í þessu sambandi og notkun þeirra tengd nokkuð við hræringar í fræðaheiminum – svo sem leit að hlutleysi og hlutlægni – en jafnframt í þjóðlífinu þar á meðal sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Þá er bent á hvernig nokkrir fræðimenn hafa leitast við að skapa aukið rými til sundurgreininga
og túlkana með fjölbreyttari orðnotkun. Loks er í meginatriðum mælt með líkri leið og farin var við ritun yfirlitsverksins Kristni á Íslandi (2000) þar sem greint var á milli sjálfsmyndar og stefnu siðbótarmannanna sjálfra, pólitískrar stefnumótunar danskra stjórnvalda um lögfestingu lútherskrar kirkjuskipanar og þeirrar langtímaþróunar sem leiddi til þess að þjóðin varð í raun evangelísk-lúthersk með notkun sérhæfðra hugtaka: siðbótar, siðaskipta og siðbreytingar.
 
Lykilorð: Siðaskipti, siðaskiptarannsóknir, orðanotkun, greiningarhugtök, hugtakasaga
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is