Útdráttur og lykilorð

 
Svavar Hrafn Svavarsson: Sifjafræði hamingjunnar
 
Forngrikkjum var tíðrætt um hamingjuna. Gegn brothættum lífum dauðlegra manna tefldu þeir fram valdi og ódauðleika guðdómsins; þeir hömpuðu réttlæti Seifs og velgengni þeirra sem ekki ögra guðunum. En hamingja manna var ekki undir þeim sjálfum komin, heldur guðdómnum. Við lok fimmtu aldar f.Kr. umbyltu heimspekingar þessari hugmynd; sú umbylting markar upphaf heimspekilegrar siðfræði. Innra ágæti mannsins er aðskilið annars konar gæðum, ágæt skapgerð og vit eru aðskilin ytri gæðum, og verða innri gæðin sjálfur mælikvarði mannlegrar hamingju. Þáttur ytri gæða og guðdómlegrar forsjónar og greiðvikni í þessari hamingju minnkar, hverfur jafnvel alveg. Hamingja verður undir manninum sjálfum komin. En þessi umbylting heimspekinganna er ekki aðeins siðfræðileg, heldur einnig guðfræðileg, því innri gæðin, sem öllu ráða um hlutskipti manns, felast í guðlegri skynsemi. Hamingjan felst í því að líkjast guði sem kostur er. Viðfangsefni greinarinnar er þessi grunnhugmynd Forngrikkja: hamingjan sem einkenni guðdómsins.
 
Lykilorð: Hamingja, evdæmonía, guðdómur, líkjast guði, grísk siðfræði
 
 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is