Útdráttur og lykilorð

 
Alda Björk Valdimarsdóttir Viska Jane Austen og ferð lesandans. Leshringir og sjálfshjálparmenning 
 
Á undanförnum árum hefur komið út fjöldi bóka þar sem leitast er við að varpa ljósi á Jane Austen sem lífsgúru og leiðbeinanda. Áhrifum Austen á lesandann er miðlað í skáldskap og ritum almenns eðlis og í jafn ólíkum greinum og vegasögum, sjálfshjálparritum og trúarbókmenntum. Allar frásagnirnar eiga það sameiginlegt að birta lýsingu á lesanda sem leitar að tilgangi, þar sem stóra viðmiðið er líf í Jane. Skáldsögur Jane Austen hafa þannig verið færðar yfir á svið sjálfshjálparmenningar bæði bókstaflega og líka sem lestrarleið. Að sama skapi eru leshringir oft hugsaðir sem sjálfsmótunartæki, þar sem hópur einstaklinga kemur saman í þeim tilgangi að bæta líf sitt, þroskast og öðlast sjálfsskilning. Í þessari grein verður kenningum um leshringi kvenna beitt á sameiningartáknið Austen, sem er meginviðfangsefnið í skáldsögu Karenar Joy Fowler, Jane Austen leshringnum. Þar hittast fimm konur og einn karl og ræða sögur Austen hverja á eftir annarri. Lesturinn hefur umbreytingar í för með sér, hann er félagsleg athöfn sem sameinar lesendur, opnar huga þeirra og þeir öðlast nægilegt hugrekki til þess að hleypa ástinni inn í líf sitt. 
 
Lykilorð: Jane Austen, sjálfshjálparmenning, leshringir, Karen Joy Fowler, viðtökufræði 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is