Útdráttur og lykilorð

 
Þröstur Helgason: Móderníska tímaritið Birtingur 
 
Birtingur (1955–1968) var módernískt tímarit. Hann hafði það að markmiði að flytja strauma og stefnur alþjóðlegs módernisma til Íslands og efla þannig nýsköpun í listum og bókmenntum sem og menningarstarfsemi og umræðu yfirleitt. Hann var ekki eina tímaritið sem stofnað var á Íslandi í þessum tilgangi en hið langlífasta og tvímælalaust áhrifamesta. Módernísk tímarit eða lítil tímarit, eins og þau hafa einnig verið kölluð, gera uppreisn gegn hefðbundnum tjáningarformum og vinna að tilraunum og nýjungum. Flest þeirra eru skammlíf og eiga við fjárhagserfiðleika að stríða. Þetta á allt við um Birting. Honum var ætlað að ná til breiðs hóps almennra lesenda en um leið átti hann að vera opinn og óháður vettvangur fyrir listir og listumræðu. Það er þó einkum tvennt sem gerði tímaritið að þeim mikilvæga miðli sem raun ber vitni. Annars vegar var ritið vettvangur fyrir innflutning og úrvinnslu hugmynda og hins vegar bauð það upp á líflega samræðu og skörun á milli ólíkra listgreina og listforma.
 
Lykilorð: Módernísk tímarit, módernismi, íslenskar bókmenntir, menningarpólitík, prenthönnun 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is