Útdráttur og lykilorð

Jakob Guðmundur Rúnarsson: Skemmtun, fróðleikur og nytsemd. Heimspekin að baki ritstjórnarstefnu tímaritsins Iðunnar, 1915–23 
 
Á árunum 1915–23 stóð Ágúst H. Bjarnason (1875–1952) að útgáfu tímaritsins Iðunnar. Vinsældir þess gerðu honum kleift að ná til stórs hóps landsmanna og taka virkan þátt í samfélagsumræðu þess tíma. Á forsendum þess „andstæðumódels“ sem hefur reynst gagnlegt við að greina menningarorðræðu millistríðsáranna hafa textar eftir Ágúst iðulega verið túlkaðir sem dæmi um þá íhaldssemi, þjóðernishyggju og andóf gegn nútímavæðingu þjóðfélagsins sem einkenndi málflutning margra borgaralegra menntamanna. Við nánari athugun kemur þó í ljós að ritstjórnarstefna og greinaskrif Ágústs í Iðunni bera vott um að hann hafi ekki tekist á við umrót nútímans á forsendum ætlaðra afarkosta. Lesendum tímaritsins var ekki leitt fyrir sjónir að þeir yrðu að snúa baki við þjóðfélagsbreytingum samtímans og leita á náðir fortíðarinnar. Þvert á móti yrði að takast á við þær af skynsemi og með vísindalega þekkingu nútímans að vopni. Ritstjórnarstefna Iðunnar hvílir því að mikilsverðu leyti á heimspekilegri afstöðu Ágústs og varpar auk þess ljósi á hugmyndir hans um hlutverk heimspekingsins. 
 
Lykilorð: Iðunn, Ágúst H. Bjarnason, raunsæisskáldskapur, nútímavæðing, íhaldssemi, bókmenntarýni, heimspeki 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is