Útdráttur og lykilorð

 
Viðar Þorsteinsson: Fjármálavæðing og mótun tímans í Konum eftir Steinar Braga 
 
Í ritgerðinnni er rýnt í skáldsöguna Konur eftir Steinar Braga og sett fram sú tilgáta að fundir aðalpersónunnar Evu við ofbeldishneigða íslenska bankamenn á tímum góðærisins, auk þess að vera sterk ádeila, bjóði upp á rannsókn á formgerðum fjármálaauðmagns. Ólíkt mörgum „hrunsögum“ er því haldið fram að Konur búi yfir óvenjulega blæbrigðaríkum undirtexta og táknsæi sem snertir á því hvernig fjármálaauðmagn öðlast ofurvald sitt yfir sjálfsverunni og tímanum sjálfum. Vísað er í marxískar kenningar um fjármálaauðmagn, jafnt úr bókmenntafræði og hagfræði, og skrif Nietzsches um minni og sjálfsveru, en einnig er leitað til franska samtímaheimspekingsins Catherine Malabou og hugtaks hennar „formun“ til að fanga eðli tengslanna milli tíma og forms sem einkennir fjámálaauðmagn í samtímanum. Hér er um að ræða sérstætt samspil væntinga og skilafrests, draums og vöknunar, sem á sama tíma fangar meint óhlutbundið og kvikult eðli fjármálaauðmagns sem og náin tengsl þess við ofbeldi og ögun. Í gegnum nákvæman lestur á því hvernig mótun og formun í bæði rúmi og tíma birtast í sögunni er sýnt fram á hvernig skáldsagan nær fram kraftmikilli sviðsetningu á formlegri virkni fjármálavalds og skuldsetningar í kapítalisma 21. aldarinnar.
 
Lykilorð: fjármálavæðing, íslenskar bókmenntir, hrunbókmenntir, meginlandsheimpseki, marxismi
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is