Útdráttur og lykilorð

Ritið 3. hefti, 15. árgangur - 2015

Bergljót Kristjánsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir og Sigrún Margrét Guðmundsdóttir: „mér fanst eg finna til“ Um empírískar rannsóknir á bókmenntum og tvær kannanir á tilfinningaviðbrögðum við lestur frásagna

Íslenskir bókmenntafræðingar eru ekki þekktir fyrir empírískar rannsóknir enda þótt erlendir félagar þeirra hafi stundað þær um árabil. Síðustu ár hafa höfundar greinarinnar staðið að slíkum rannsóknum – stundum í samvinnu við aðra – en hér lýsa þeir tveimur upphafskönnunum sem þeir gerðu árið 2012. Í upphafi ræða þeir þó almennt um empírískar bókmenntarannsóknir og mismunandi hugmyndir um þær og drepa á síaukinn áhuga á þverfaglegum rannsóknum. Þannig reyna þeir að gefa lesendum nasasjón af því hvað er að gerast á sviði sem lítt hefur verið rætt um hérlendis. Kannanirnar tvær voru eigindlegar og markmið þeirra að afla upplýsinga hjá raunverulegum lesendum um hver þeir teldu tilfinningaviðbrögð sín vera við völdum frásögnum eða frásagnarbrotum. Í annarri könnuninni lásu þátttakendur heilt skáldverk, smásöguna „Grimmd“ eftir Halldór Stefánsson en í hinni, tvö brot úr ólíkum skáldsögum, annars vegar Fjallkirkjunni eftir Gunnar Gunnarsson og hins vegar Samastað í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur. Framkvæmd kannananna er lýst, muninum á þeim og megintilgátum, svo og ólíkum aðferðum sem nýttar eru þegar greint er frá niðurstöðum þeirra. Í könnuninni á viðbrögðum við „Grimmd“ var merkilegasta niðustaðan að tilfærsla þátttakenda inn í frásagnarheiminn varð á sama stað hjá meirihluta þeirra sem á annað borð sökktu sér í hana, auk þess sem fréttaflutningur af tilteknum samtímaatburðum hafði augljós áhrif á viðtökur sögunnar. Í könnuninni á textabrotunum úr sögum Málfríðar og Gunnars – þar sem teflt var saman tveimur ólíkum aldurshópum – vakti mesta athygli hve mikill munur var á viðbrögðum ungra lesenda (24–28 ára) og aldinna (68–82 ára), afstöðu þeirra til tiltekinna persóna og hæfni þeirra til að ímynda sér þann söguheim sem þeir fengu innsýn í. Niðurstöður beggja kannana eru teknar saman og komið með ýmsar skýringartillögur á þeim, jafnframt því sem bent er á hvers konar rannsóknir væri þarft að gera í framhaldinu. Að endingu er drepið á hugsanlegar ástæður þess að íslenskir bókmenntafræðingar hafa verið áhugalausir um empírískar rannsóknir; stiklað á hvaða gagn höfundarnir telja sig hafa haft af könnununum tveimur og hverja þeir telja helstu annmarka þeirra vera, svo og hvernig þeim var seinna fylgt eftir.

Lykilorð: bókmenntir, lestur, empírískar rannsóknir, eigindlegar kannanir, tilfinningaviðbrögð 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is