Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 13. árgangur - 2013

Irma Erlingsdóttir: Af sviði fyrirgefningar: Um minningar, réttlæti og pólitík í túlkun Hélène Cixous á „blóðhneykslinu“ í Frakklandi“

Í greininni er fjallað um leikrit Hélène Cixous La Ville parjure ou le Réveil des Érinyes (Svikin borg eða Uppvakning örlaganornanna) út frá kenningum um minni og „umbreytingarréttlæti“ (e. transitional justice), þ.e. pólitísk og lagaleg breytingaferli eftir djúpstæð samfélagsáföll. Verkið er söguleg og pólitísk greining á hinu svonefnda „blóðhneyksli“ (fr. l’affaire du sang contaminé) sem átti sér stað í Frakklandi um miðjan níunda áratug 20. aldar, en skírskotar jafnframt til annarra sögulegra atburða eins og helfararinnar og Bosníustríðsins. Sérstök áhersla er lögð á túlkun Cixous á fyrirgefningu og val hennar á leið fyrirgefningar í stað refsingar í anda „endurgjaldsréttlætis“ (e. retributive justice). Fjallað er um merkingu hugtaka sem tengjast „uppbyggilegri réttvísi“ (e. restorative justice), eins og „játningu“, „afsökun“ og „náðun“. Sjónum er beint að spurningunni um hvort fyrirgefning eigi að vera skilyrðislaus eða skilyrðisbundin í anda heimspeki Derrida, en hann telur þessar tvær leiðir vera í senn ósmættanlegar og óaðskiljanlegar. Þá er fjallað á gagnrýninn hátt um greiningu Susan Ayres á leikritinu, en hún telur að það taki ótvíræða afstöðu með „uppbyggilegu réttlæti“ og skilyrtri fyrirgefningu.

Lykilorð: Hélène Cixous, pólitískt leikhús, franska blóðhneykslið, samfélagsáföll, umbreytingarréttlæti

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is