Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 13. árgangur - 2013

Kristín Loftsdóttir: Endurútgáfa Negrastrákanna: Söguleg sérstaða Íslands, þjóðernishyggja og kynþáttafordómar

Barnabókin Negrastrákarnir var gefin út á íslensku árið 1922 með myndskreytingum listamannsins Muggs. Texti bókarinnar samanstóð af þýddum vísum sem gefnar hafa verið út víða um heim frá seinni hluta 19. aldar. Við endurútgáfu bókarinnar á Íslandi árið 2007 upphófust harðvítugar deilur þar sem sumir gagnrýndu kynþáttafordóma í bókinni og töldu að hana hefði ekki átt að endurútgefa á meðan aðrir vörðu endurútgáfuna. Greinin staðsetur þessa deilur innan hugmynda um félaglegt minni (e. social memory) til að varpa ljósi á merkingu kynþáttahyggju í samtímanum, ásamt því að staðsetja deilurnar innan gagnrýninnar endurskoðunar sem nýlega hefur átt sér stað meðal fræðimanna á því hvernig tengslum Norðurlandanna við nýlenduverkefni 19. aldar er minnst. Í greininni er því haldið fram að þrátt fyrir að bókin feli í sér sterka kynþáttafordóma, sem einnig má finna í öðrum íslenskum textum frá sama tíma, sé of mikil einföldun að líta eingöngu á sýn þeirra sem vörðu bókina og endurútgáfu hennar árið 2007 sem tjáningu slíkra fordóma. Sýnt er fram á að umræður sem spunnust í kringum endurútgáfuna virðast einnig að stórum hluta snúast um minni sem er samofið hugmyndum um sögu og fortíð Íslands og snýr þannig einnig að þjóðernislegri sjálfsmynd á Íslandi. Slíkt minni verður hluti af því hvernig einstaklingar muna eftir eigin sögu og sjálfum sér sem hluta af íslensku þjóðinni.

Lykilorð: Kynþáttafordómar, þjóðernishyggja, félagslegt minni, söguleg sérstaða

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is