Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 13. árgangur - 2013

Sverrir Jakobsson: Hin heilaga fortíð: Söguvitund og sameiginlegt minni í handritunum Hauksbók og AM 226 fol.

Söguskoðun er nátengd sameiginlegum minningum og sjálfsmynd tiltekins hóps. Í þessari grein er ætlunin að greina sjálfsmynd Íslendinga sem hluta af alþjóðlegu samfélagi kristinna manna á hámiðöldum (um 1100–1350). Sjónum er beint að ritum um veraldarsögu en þau varðveittu sameiginlegar minningar kristinna manna sem hóps, eins og þær minningar voru skilgreindar af orðræðusamfélagi kristinna menntamanna á Íslandi og um allan hinn kristna heim. Fyrstu íslensku ritin um veraldarsögu eru frá fyrri hluta 12. aldar og tengjast upphafi sagnaritunar um Íslandssögu. Þessi rit voru knöpp og höfðu fyrst og fremst þann tilgang að skapa ramma utan um sögulega þróun. Þessi rammi varð svo hluti af viðtekinni þekkingu íslenskra sagnaritara á fortíðinni. Í handritinu AM 226 fol. frá miðri 14. öld er öll veraldarsagan dregin saman í einu handriti með viðbótarefni um sögu Alexanders mikla, Gyðinga og Rómverja. Sumt vantar þó í þetta handrit og var það efni sem féll ankannalega að heimsaldrafræðum, Trójumanna saga og Breta sögur. Þetta eru hins vegar þau sagnarit sem Haukur Erlendsson kaus að hafa með í Hauksbók, yfirgripsmiklu riti sem samið var í upphafi 14. aldar. Þannig tengdi Haukur Íslandssögu sína (Landnámabók og Kristni sögu) við veraldarsöguna. Um miðja 14. öld var veraldarsagan komin í þann búning sem hún birtist Íslendingum í margar aldir.

Lykilorð: Sameiginlegt minni, söguvitund, sjálfsmyndir, veraldarsaga, textafræði, handritarannsóknir

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is