Útdráttur og lykilorð

Ritið 3. hefti, 13. árgangur - 2013

Dagný Kristjánsdóttir: Tyrkjaránið og Guðríður Símonardóttir sem blæti

Í Tyrkjaráninu 1627 voru meira en 350 Íslendingar brottnumdir og seldir sem þrælar í Algeirsborg. Þessi atburður var hluti af umfangsmikilli hvítri þrælasölu sem Ósmanska heimsveldið lét óáreitta en hann var ekki á vegum þess. Á Íslandi varð Tyrkjafánið að sögulegu „tráma“ sem hafði víðtækar félagslegar afleiðingar. Reynslu herleiddu Íslendinganna er að hluta lýst í hinni einstæðu Reisubók séra Ólafs Egilssonar frá Vestmannaeyjum og bréfum þriggja Íslendinga sem seldir höfðu verið sem þrælar í Algeirsbók. Þessar heimildir eru til vitnis um blöndun ólíkra menningarheima, tvíræðni og eftirhermur í samskiptum hinna herleiddu og eigenda þeirra. Guðríði Símonardóttur frá Vestmannaeyjum sem rænt var tókst að borga hluta af lausnargjaldi sínu af sparipeningum sínum þegar hún var keypt til baka níu árum síðar. Hún var kennd við hinn framandi heim sem rændi henni og kölluð Tyrkja–Gudda. Munnmæli og þjóðsögur um hana minna á „forboðna ávexti“ eða „framandi og lokkandi hinn“ (e. exotic other), henni er lýst sem fagurri en hættulegri og því er haldið fram í greininni að það hafi orðið hlutskipti hennar að verða eins konar blæti til þess að menn gætu náð valdi yfir óttanum við útlendinga með því að breyta henni í óvininn, og ná valdi yfir henni – ef ekki efnislega, þá í sögum og fantasíum. Með slíku blæti var hægt að segja sér og öðrum að Íslendingum væri best borgið með algjörri einangrun í bráð og lengd.

Lykilorð: Tyrkjaránið, hvít þrælasala, eftirlendufræði, bókmenntir, femínismi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is