Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 13. árgangur - 2013

Eyja Margrét Brynjarsdóttir: Er heimspekin kvenfjandsamleg?

Vegna lágs hlutfalls kvenna sker heimspekin sig úr hópi hugvísindagreina. Af þessum sökum hefur því stundum verið haldið fram að heimspekin sé kvenfjandsamleg. Slík staðhæfing getur þýtt ýmislegt, til dæmis að eitthvað við samfélag heimspekinga hafi fælandi áhrif á konur, að heimspekingar séu öðrum líklegri til að vera konum fjandsamlegir, að þær aðferðir sem notaðar eru í heimspeki henti síður konum en körlum eða að heimspekin sem fræðigrein sé hreinlega í eðli sínu kvenfjandsamleg. Hér er skoðað að hvaða leyti heimspekin geti verið kvenfjandsamleg, fyrst og fremst með það fyrir augum að grafast fyrir um orsakir hins lága hlutfalls kvenna í heimspeki í því skyni að finna leiðir til úrbóta. Því er hafnað að heimspeki sé í eðli sínu kvenfjandsamleg en tilgreindir eru ýmsir samverkandi áhrifaþættir sem geta fælt konur frá heimspekiiðkun eða gert þeim erfitt fyrir við að fóta sig innan greinarinnar.

Lykilorð: heimspeki, konur, kvenfjandsemi, aðferðafræði, jafnrétti

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is