Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 12. árgangur - 2012

Sigurjón Árni Eyjólfsson: Þjóðkirkja og krísa

Í greininni er fjallað um að hugtakið „krísa“ sé samofið evangelísk-lútherskri kirkju og guðfræði. Færð rök fyrir því að kirkjudeild mótmælenda, sem evangelísk-lúthersk kirkja tilheyrir, mótist beinlínis af hugmyndum um krísu, greiningu hennar og leit að framtíðarsýn til að leysa hana. Í framhaldi af því er fjallað um hugmyndir Hjalta Hugasonar og Gunnars Kristjánssonar um íslensku þjóðkirkjuna. Hjalti Hugason telur að kirkjan verði að hafa skýra framtíðarsýn sem innihaldi afstöðu með þeim húmanísku grunngildum sem vestræn menning byggist á og verði þar að auki að virða lýðræðisreglur samfélagsins þar sem jákvætt trúfrelsi og jafnræðisregla er í heiðri höfð. Gunnar Kristjánsson hefur svipuð sjónarmið, en það sem greinir þá að er áhersla Gunnars á að kirkjan eigi samleið með þjóðinni í gegnum menninguna sem mótar jafnt kirkju og þjóð. Kirkjusýn beggja er mótuð af kirkjusýn siðbótarmanna, útfærslu hennar hjá Schleiermacher, og í frjálslyndri guðfræði. Það sem vekur athygli í framsetningu beggja er hve lítið vægi ritningin hefur í kirkjuskilningi þeirra.

Lykilorð: trú, þjóðkirkjan, krísa, gildi, framtíðarsýn

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is