Útdráttur og lykilorð

Ritið 3. hefti, 13. árgangur - 2013

Nanna Hlín Halldórsdóttir: Getur leikurinn verið jafn? Um jafnrétti út frá valdagreiningu Foucaults

Í þessari grein er leitast við að skilgreina hugtakið jafnrétti út frá valdagreiningu Michels Foucault og þá aðallega áherslu hans á vald sem tengsl. Í hugmyndasögu femínískra kenninga er jafnrétti séð sem andstætt margbreytileika en þar að auki er jafnrétti mikilvægt hugtak pólitískrar frjálslyndisstefnu; í beinum tengslum við lagakerfi réttarríkisins. Samkvæmt Foucault er ákveðin missýn á valdahugtakið ráðandi; sjálfsverur sjá vald sem eitthvað sem setur lífi þeirra skorður þegar það mótar í raun líf fólks í vestrænum nútímasamfélögum; nútímaformgerð valds er lífvald. Til þess að sjá jafnrétti í nýju ljósi er mikilvægt að huga að því hvaða sjálfsverumótun þetta leiðir af sér; hvernig hún bæði býr til og gerir okkur erfiðara fyrir að sjá margvíslegan ójöfnuð. Í anda Foucaults verður hvatt til nýrra gerða sjálfsveruhátta sem hafa andóf að leiðarljósi, þar sem hugað er að jafnrétti í öllum tengslum er varða vald. Samkvæmt greiningu Foucaults er jafnrétti hins vegar ómögulegt í einstaka valdatengslum – en frekar en að það afskrifi jafnréttishugtakið tel ég að sá jákvæði, útópíski blær sem felst í hugtakinu sé okkur mikilvægur til að sjá sífellt möguleikann á hinu nýja hvað varðar valdatengsl, jafnrétti og mismunun hvers konar.

Lykilorð: Jafnrétti, vald, sjálfsvera, Foucault, femínismi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is