Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 12. árgangur - 2012

Sólveig Anna Bóasdóttir: Kynhneigð í krísu – Kirkjan, hinsegin fólk og mannréttindi

Kastljósi þessarar greinar er beint að tengslum kynferðilegs margbreytileika og kynverundarréttinda. Kynferðislegur margbreytileiki er skoðaður með sjónglerjum kynfræði og siðfræði og sú skoðun sett fram að nauðsyn beri til að ögra ríkjandi gagnkynhneigðarhyggju í samfélaginu öllu, en þó umfram allt á kirkjulegum vettvangi. Sjónum er beint að mikilvægum hluta róttækrar kenningar Gayle Rubin (1984) um vestræn viðhorf til kynlífs og fjallað sérstaklega um greiningu hennar á kristinni hugmyndafræði þar um. Greining Rubin á kristinni kynlífshugmyndafræði er tengd umræðu um neikvæðni kirkjunnar gagnvart kynlífi, fyrr og nú, sem og hinu siðapredikandi gildakerfi hennar. Í umræðunni um kynferðislega fjölbreytni er vísað til ‘ósæmilegrar’ guðfræði hinsegin guðfræðingsins Marcellu Althaus-Reid en hún benti á að beina yrði sjónum að hinum fátæku og jaðarsettu og að kynverundarhugtakinu fremur en kyngervishugtakinu í baráttunni fyrir réttindum hinsegin fólks – gegn aldagamalli, fordómafullri hugmyndafræði kirkjunnar um kynlíf. Þetta framlag Althaus-Reid er álitið vera mikilvægt siðfræðilegt veganesti fyrir kirkjur samtímans sem vilja vinna að mannréttindum og velferð allra manna, án aðgreiningar.

Lykilorð: kirkjan, gagnkynhneigðarhyggja, hinsegin fólk, kynferðislegur margbreytileiki, kynverundarréttindi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is