Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 12. árgangur - 2012

Pétur Pétursson: Stofnun eða andi – Kirkjukreppur á Íslandi frá einveldi til lýðveldis

Fjallað er um helstu krísur í íslenskri kirkjusögu frá einveldi til lýðveldis og forsendur og einkenni þeirra greind út frá þeirri spennu sem trúarsannfæring einstaklinga og stofnanavæðing felur í sér. Greiningin byggir á trúarhugtakinu og félagsfræðilegu hugtökunum taumhaldi, réttlætingu valds, aðgreiningu og afhelgun. Áherslan er á upphaf tímabilsins sem hér um ræðir og lok þess og gengið út frá því sem forsendu að kirkjuþróun og félagslegar breytingar haldist í hendur. Á tímum einveldisins var kirkjunni markvisst beitt til að réttlæta valdakerfi dönsku stjórnarinnar í Kaupmannahöfn og hún gegndi veigamiklu taumhaldshlutverki í því sambandi, en eftir að sjálfstæðisbaráttan hófst fóstraði sama kirkja hreyfingar sem lögðu grunninn að íslenska þjóðríkinu. Fjallað er um ástæður þess að uppgjör og endurmat á guðfræði og skipan kirkjustarfs fór ekki fram fyrr en í upphafi 20. aldar, en þá fyrst er hægt að tala um þjóðkirkju. Frelsishugmyndir fengu þá byr undir báða vængi í trúmálum sem og á fleiri sviðum og birtist þetta m.a. í spíritísku hreyfingunni sem orsakaði mikil átök innan íslensku þjóðkirkjunnar á fyrri helmingi 20. aldar.

Lykilorð: ríkiskirkja, þjóðfrelsisbarátta, frjálslynd guðfræði, heilagur andi, spíritismi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is