Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 12. árgangur - 2012

Benedikt Hjartarson: Af goðkynngi orðsins. Um yfirlýsingar evrópsku framúrstefnunnar og galdratrú í rússneskum fútúrisma og symbólisma

Útgáfa stofnunaryfirlýsingar ítalska fútúrismans eftir Filippo Tommaso Marinetti árið 1909 hratt af stað bylgju slíkra texta víðs vegar um Evrópu, þar sem skáld og listamenn brugðust við hinni nýju bókmenntagrein með ólíkum hætti. Yfirlýsingar rússnesku framúrstefnunnar eru eitt forvitnilegasta dæmið um gagnrýnin viðbrögð við skrifum Marinettis og á það ekki síst við um skrif kúbó-fútúristanna, sem lögðu áherslu á að endurnýjun menningarinnar þyrfti að eiga uppruna sinn í sjálfstæðu rými skáldskaparins. Textar hreyfingarinnar eru lýsandi dæmi um hvernig yfirlýsingin verður að sjálfstæðum og listrænum textamiðli í starfsemi sögulegu framúrstefnunnar, sem ætlað var að knýja fram andlega byltingu. Textarnir eru jafnframt skýrt dæmi um samfelluna sem greina má í færslunni frá symbólisma til framúrstefnu í evrópskri menningu, eins og glögglega kemur í ljós þegar sjónum er beint að hlutverki nútímadulspeki og einkum hugmyndarinnar um goðkynngi í hinni nýju fagurfræði.

Lykilorð: stefnuyfirlýsingar, framúrstefna, kúbó-fútúrismi, dulspeki, goðkynngi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is