Útdráttur og lykilorð

Ritið 3. hefti, 13. árgangur - 2013

Birna Arnbjörnsdóttir og Hafdís Ingvarsdóttir: „Það er gífurleg áskorun að þurfa að vera jafnvígur á að skrifa fræðigreinar á tveimur tungumálum“

Um allan heim hefur aukist krafan um að fræðimenn gefi út verk sín á ensku í virtum alþjóðlegum tímaritum og gildir það einnig um íslenska fræðimenn. Í slíkum ritum eru gerðar miklar kröfur um framsetningu, m.a. um að málfar sé samkvæmt viðurkenndum enskum móðurmálsstöðlum. Markmiðið með birtingu í virtustu ritum er að styrkja stöðu og rannsóknarímynd háskólanna. Lítill gaumur hefur verið gefinn að viðhorfum háskólakennara til þess að skrifa á ensku. Í nýlegum rannsóknum er auk þess dregið í efa að útgáfa á ensku auki í raun samkeppnishæfni. Hér er lýst niðurstöðum viðtalsrannsóknar á afstöðu 10 íslenskra fræðimanna til greinaskrifa í alþjóðleg rit en markmið hennar var að fylgja eftir spurningakönnun sem áður hafði verið lögð fyrir um sama efni. Flestir þátttakendur töldu almenna enskukunnáttu sína góða en að þeir þyrftu engu að síður aðstoð við ritun á ensku. Þetta var þó misjafnt eftir fræðasviðum. Enginn slíkur formlegur stuðningur er í boði hér á landi. Niðurstöðurnar kalla á vitundarvakningu um stöðu fræðimanna sem ekki hafa ensku að móðurmáli.

Lykilorð: Viðhorfsrannsókn, alþjóðavæðing háskólastigsins, akademísk ritun á ensku

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is