Útdráttur og lykilorð

Ritið 3. hefti, 13. árgangur - 2013

Bergljót Kristjánsdóttir:  „að segja frá [...] ævintýrum“. Um leynilögreglusöguna, lestur, hugarkenninguna og söguna „Ungfrú Harrington og ég“

Menn hafa haft ólíkar hugmyndir um hver hefði verið höfundur fyrstu íslensku leynilögreglusögunnar en íslensk–kanadíski rithöfundurinn Jóhann Magnús Bjarnason hefur oft verið nefndur. Í greininni er því haldið fram að hann hafi fyrst og fremst nýtt sér form leynilögreglusögunnar til að segja sögur af öðru tagi. Því næst er gerð grein fyrir hugarkenningunni, sem er talin skýra áhuga manna á leynilögreglusögunni, og rætt um gagnrýni á hana. Þá er greind saga eftir Jóhann Magnús, „Ungfrú Harrington og ég“ sem hefur ekki verið tengd leynilögreglusögum fyrr, kannað hvað hann sæki til leynilögreglusögunnar í henni og hugað að aðferðum sem hann nýtir til að stýra lesendum, svo og því hvernig þeir kunna að bregðast við eða hafa brugðist við, t.d. með því að stunda hugarlestur. Loks verður sagan tilefni til vangaveltna um íslenska bókmenntasögu.

Með framangreindum hætti er reynt að slá nokkrar flugur í einu höggi: Dregnar eru fram tvenns konar áherslur sem sjá má í hugrænum fræðum, annars vegar á þróunarsögu mannsins sem hugveru; hins vegar á fyrirbærafræði og manninn sem skepnu með líkamsmótaða vitsmuni þar sem skynjun og það sem skilningarvitin nema í skiptum við aðra og umhverfið er til alls fyrst (sbr. líkamsmótaða víxlverkun og frásagnariðkunartilgátuna). Með greiningunni á sögu Jóhanns Magnúsar er reynt að veita dálitla innsýn í það samhengi sem lestur manna er hluti af og draga athygli að ýmsum almennum líkamseinkennum sem koma við sögu þegar lesið er og greinarhöfundur telur að skipti síst minna máli en hugarlestur. Loks er reynt að vekja athygli á ýmsum atriðum sem þörf er að huga að í íslenskri bókmenntasögu, þar á meðal áhrifum leynilögreglusögunnar á íslenska höfunda á fyrstu áratugum 20. aldar.

Lykilorð: Jóhann Magnús Bjarnason, leynilögreglusagan, lestur, hugarkenningin, frásagnariðkunartilgátan

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is