Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 11. árgangur - 2011

Helga Kress: Söngvarinn ljúfi. Um myndir og orð í kvæði eftir Jónas Hallgrímsson

Kvæði Jónasar Hallgrímssonar (1807–1845), „Ég bið að heilsa“, er sonnetta, sú fyrsta á íslensku. Kvæðið orti hann í Sórey snemma vors 1844 og sendi það félögum sínum í Höfn til birtingar í Fjölni. Sú gerð sem þar birtist (og allar síðari útgáfur hafa stuðst við) er þó töluvert frábrugðin eiginhandarritinu. Við ritstýringuna hefur verið skipt út orðum og sjónarhorni hnikað þannig að myndmál breytist og merkingin brenglast. Miðlæg mynd í frumkvæðinu er farfuglinn, „söngvarinn ljúfi“ sem skáldið erlendis ávarpar svo og biður fyrir kveðju (sem um leið er kvæðið) til landsins og stúlkunnar heima. En útgefendum líkaði ekki orðið „söngvari“ (sbr. bréf þeirra til Jónasar) og breyttu því í „vorboða“. Þar með drógu þeir úr hliðstæðu kvæðisins með söngvara og skáldi, söng og kvæði, sem og einnig nafnskiptum (metónýmíu) söngvarans fyrir sonnettuna sjálfa (en sonnetta merkir „lítill söngur“). Þannig hverfast söngvarinn og sonnettan upprunalega saman í kvæðinu, nýju ljóðformi sem Jónas sendi löndum sínum sunnan úr löndum og vísar leið til nútímans í íslenskum bókmenntum.

Lykilorð: Jónas Hallgrímsson, eiginhandarrit, útgáfur, ljóðgreining, íslensk bókmenntasaga.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is