Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 11. árgangur - 2011

Sveinn Yngvi Egilsson: Náttúra Huldu

Greinin fjallar um ljóðræna náttúrusýn skáldkonunnar Huldu (Unnar Benediktsdóttur Bjarklind, 1881–1946) í ljósi vistrýni (e. ecocriticism). Færð eru rök fyrir því að afstaða hennar til náttúrunnar verði ekki aðeins skilgreind sem nýrómantísk eða táknsæisleg heldur lýsi hún sér einnig í því sem fræðimaðurinn Marshall McLuhan hefur kallað innra landslag. Auk þess sé náttúrusýn Huldu að hluta rómantísk, eins og ráða megi af nákvæmum landslagslýsingum og sterkri staðarkennd sem hún tjái í ljóðum sínum. Hulda fjalli oft um fegurð og yndi náttúrunnar, en ljóð hennar séu öðrum þræði þunglyndisleg og eigi það ekki síst við um hin nýstárlegu þululjóð hennar. Í greininni eru þululjóðin tengd við formnýjungar og hugmyndalegt uppbrot í erlendum samtímaskáldskap og því haldið fram að Hulda sé mun nútímalegra skáld en oft er haldið. Frjálsar og þunglyndislegar yrkingar hennar eru að því leyti bornar saman við arabeskur danska skáldsins J.P. Jacobsens (1847–1885) sem hún hafði mikið dálæti á. Komist er að þeirri niðurstöðu að Hulda hafi brotið blað í íslenskri ljóðagerð með óvenjulega samsettri og þunglyndislegri náttúrusýn sem hún setti fram með módernískum hætti í ljóðum sínum.

Lykilorð: Hulda (Unnur Benediktsdóttir Bjarklind), íslensk ljóðagerð, náttúra, vistrýni, arabeska.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is