Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 11. árgangur - 2011

Irma Erlingsdóttir: Af veikum mætti. Ábyrgðar- og gagnrýnishlutverk háskóla

Í greininni er hlutverk háskólans og háskólafólks í nútímasamfélagi kannað. Bent er á þýðingu hugmyndar Derridas um „háskóla án skilyrða“ með því að leggja áherslu á skyldu háskólasamfélagsins til þess að „láta í sér heyra“ og sýna mótþróa gagnvart hvers kyns valdi –  hvort sem um er að ræða fullvalda ríki, efnahagsvald, hugmyndafræði, menningu, trúarbrögð eða fjölmiðla. Með dæmi af íslenska efnahagshruninu er því haldið fram að ónæmiskerfi háskólans hafi skaðast af markaðsdrifinni vöruvæðingu og tækniveldi sem sótti á kennslu og rannsóknir. Þessi þróun hefur eflt „atvinnumennsku“ innan háskólans og haft deyfandi áhrif á getu háskólasamfélagsins sem andspyrnuafls. Til þess að háskólinn verndi hlutverk sitt sem vettvangur gagnrýninnar sköpunar verður hann að mynda rými á mörkum stofnana, hugmynda og orðræðu. Ef honum tekst það er hann ekki einungis í betri stöðu til þess að mæta þeim markaðsöflum sem sækjast eftir að móta hann að eigin fyrirmynd heldur myndi hann einnig taka skref í átt að skilyrðislausum, landamæralausum háskóla. 

Lykilorð: „Háskóli án skilyrða"; Derrida; samfélagsgagnrýni og hlutverk menntamanna; vöruvæðing menntunar; rannsóknartækniveldi; háskólasamfélagið; íslenska efnahagshrunið

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is