Útdráttur og lykilorð

Ritið 3. hefti, 13. árgangur - 2013

Þorsteinn Helgason:  Tyrkjaránið sem minning

Tyrkjaránið á Íslandi var hernaðaraðgerð, pólitískur viðburður og þjóðréttarleg gjörð en hvernig sem það er skilið situr það fast í minni Íslendinga og verður ekki fram hjá því gengið. Um ránið eru allmiklar samtímaheimildir og þær eru flestar skjalfærðar minningar einstaklinga sem voru þátttakendur og vitni að atburðunum. Vegna þeirra og söguslóða sem enn má vitja hafa margir tengt sig við atburðina eftir að þeir áttu sér stað og haft um þá merkingarbær sjónarmið. Fyrir þátttakendurna voru minningarnar trámatískar en þó í misjöfnum mæli, t.d. er skelfing augljós í frásögn Kláusar Eyjólfssonar en blærinn yfirvegaðri í reisubók Ólafs Egilssonar. Tyrkjaránið varð fljótlega að þjóðminningu þar sem ritaðar frásagnir af því flugu um landið í afskriftum og stjórnvöld skáru úr um að það varðaði þjóðarheill. Atburðirnir hafa verið túlkaðir og notaðir á mismunandi vegu í þjóðfélagsumræðu og söguritun – sem rof á friðsæld Íslands, sem niðurlæging á eymdartímum, sem ögrun við siðræn gildi, sem prófsteinn á gildi lands og lýðs – en engin ein túlkun hefur fest sig í sessi til langframa. Í hnattvæðingu nútímans og náinnar framtíðar má hugsa sér að minningunni um Tyrkjaránið verði miðlað til alþjóðasamfélagsins og að hún verði hugsanlega tilefni til afsökunarbeiðni en slíkar hafa tíðkast í vaxandi mæli vegna misgjörða fortíðar.

Lykilorð: Einstaklingsminning, sameiginleg minning, áfallaminning, félagsleg minning, Tyrkjaránið

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is