Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 11. árgangur - 2011

Jón Ólafsson: Róttækur háskóli – tvíræður háskóli

Í greininni eru rædd nýleg verk eftir tvo áberandi bandaríska fræðimenn, Mörthu C. Nussbaum og Mark C. Taylor, en bæði tjá þau alvarlegar áhyggjur sínar af stöðu og framtíð háskólasamfélagsins. Greining þeirra virðist þó við fyrstu sýn birta tvö andstæð sjónarhorn. Nussbaum gagnrýnir samfélagslegan og pólitískan þrýsting um að háskólamenntun einblíni greinilegar á hagnýta þætti, undirbúi nemendur fyrir störf þar sem tæknilegir hæfileikar eru vegnir hærra á metunum en klassísk menntun en Taylor ræðst á háskólamenn fyrir að hafa leyft háskólanum smám saman að staðna. Taylor óttast að áherslan á rannsóknir og birtingar án þess að hugað sé sérstalega að gagnsemi þeirra, bæði innan háskólans og almennt, geti leitt til skorts á virðingu fyrir háskóla og háskólamönnum. Það sem Nussbaum lítur á sem ógnun við hefðbundinn rannsóknarháskóla telur Taylor hins vegar áskorun. Þessi tvö ólíku sjónarmið endurspegla tvær ólíkar nálganir á háskólasamfélagið. Þau eru bæði mikilvæg og nauðsynleg þó að þau séu andstæð. Háskólinn er vettvangur sérfræðiþjálfunar og verður að geta af sérfræðinga sem búa yfir ríkum tæknilegum hæfileikum. Hann er samt sem áður einnig suðupottur félagslegrar, pólitískrar og menningarlegrar umræðu þar sem stöðug nærvera fagmannlegra átaka, samkeppni og ólíkra pólitískra viðhorfa eru áríðandi. Háskólinn tapar mest á tilraunum til þess að skilgreina takmark sitt of nákvæmt. Í lýðræðislegu samfélagi verður að líta á hann sem samfélag innan samfélags, samansafn hópa og einstaklinga sem geta ekki skerpt, skýrt eða skilgreint takmark og markmið líkt og ef háskólinn væri fyrirtæki sem framleiðir eða markaðsetur afurðir og þjónustu. Til þess að vernda háskólann sem vettvang fyrir róttækni – nýsköpun, gagnrýni og hugvit verður að líta á hann sem margrætt fyrirbæri, illskilgreinanlegt, sem örðugt er að henda reiður á eftir hefðbundum leiðum. 

Lykilorð: Háskóli; háskólasamfélag; hugvísindi; gagnrýnin hugsun; róttækni

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is