Útdráttur og lykilorð

Ritið 1. hefti, 11. árgangur - 2011

Björn Þór Vilhjálmsson: Skrif við núllpunkt. Um steingervinga, sæborgir og endalok í Himninum yfir Þingvöllum

Sagnasafnið Himinninn yfir Þingvöllum eftir Steinar Bragar er hér lesið í samhengi við hugmynd Freuds um dauðahvötina til þess að varpa ljósi á fagurfræði- og heimspekilegan margbreytileika verksins. Í hverri sagnanna þriggja er dauðinn miðlægur, með áherslu á ákveðna þrá fyrir endalokum, sem er sett fram á táknrænan hátt til dæmis í nályndi (e. necrophilia), hugmyndinni um útdauðar lífverur og heimsendi. Því er haldið fram að Steinar Bragi glími við freudískt vandamál sem felur í sér þversögn, jafnan vísað til þess sem „algleymilögmálsins“, sem gerir ráð fyrir að takmark lífsins sé að ná ákveðnum núllpunkti. Svo virðist sem þetta réttlæti sjálfseyðandi hegðun sem hluta af ósveigjanlegri sókn í kyrrstöðu. Með því að fjalla fyrst um þetta vandamál í ljósi einstaklingsins og síðan víkka samhengið út þar til það nær utan um veröldina eftir heimsendi, mynda sögurnar þrjár eina sögu sem setur í forgrunn mikilvægar spurngar um samband manns og náttúru og skilur lesandann eftir í ógöngum: hvað ef hinn tilvistarlegi núllpunktur handan vellíðunarlögmálsins, og er settur fram í hugmyndakerfi Freuds sem fjarvera skynhrifa er táknræn hliðstæða neyslu mannsins sem stefnir í að tæma auðlindir jarðar? Er hægt að lesa umgegni við umhverfið sem birtingarmynd dauðahvatarinnar, drifna áfram af ómeðvitaðri þrá eftir endalokum?

Lykilorð: Himinninn yfir Þingvöllum, Steinar Bragi, dauðahvötin, Sigmund Freud, umhverfisgagnrýni

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is