Útdráttur og lykilorð

Ritið 2. hefti, 13. árgangur - 2013

Ástráður Eysteinsson: Frásagnarkreppur módernismans. Tilraun um bókmenntir og fuglaskoðendur

Meðal helstu einkenna módernískra bókmennta eru flækjur, niðurbrot eða hrun frásagna. Þá er ekki endilega átt við rof í röð frásagnaratriða og atburða heldur í samhengi þeirra skírskotana, því samsetta merkingarmynstri, sem frásagnir byggjast á og lesendur taka þátt í að skapa. Þótt oft hafi verið talið að slíkt rof sé þáttur í fagurfræðilegu sjálfstæði módernískra verka, veldur það jafnframt krísu. Lagt hefur verið upp í marga leiðangra í leit að tengslunum milli módernískra verka og sögulegs umhverfis: nútímans sem leynist eða speglast í slíkum verkum. Eftir því sem módernisminn verður mikilvægari sem hugtak um nútímabókmenntir fjölgar sögunum sem sagðar eru um hann og þær hafa teygt sig til æ fleiri landa, heimshluta og tungumála. Þannig verður til ný frásagnarkreppa sem tengist þó þeirri sem þegar var getið. Hvernig er hægt að segja sögu módernismans? Hver er landafræði hans og tímarammi og hver eru viðmið og sjónarhorn frásagnarinnar hverju sinni? Í greininni er spurt um einkenni og sögulega afmörkun módernismans, ekki síst með tilliti til tímabila og afstöðu hans til samfélagsorðræðu og bókmenntahefðar, sérstaklega raunsæislegarar tjáningar og frásagna.

Lykilorð: módernismi, raunsæi, frásagnarkreppa, bókmenntahefð, tímabil í bókmenntasögu, rannsóknasaga

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is