Útdráttur og lykilorð

 
Hildigunnur Ólafsdóttir og Unnur María Bergsveinsdóttir: Reykjavíkurnætur: Frásagnir af skemmtanalífi
 
Fyrir margt ungt fólk er mikilvægt að fara út á kvöldin. Í borgarmenningu samtímans er barinn vettvangur félagslífs, staður til þess að sýna sig og sjá aðra og staðsetja sig innan ákveðins hóps eða innan ákveðins sviðs. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á hlutverk áfengis og vínveitingastaða í lífi ungs fólks. Spurningum sem varpað er fram í rannsókninni eru meðal annars: hvað hvetur fólk til þess að sækja bari og hverjar eru væntingarnar? Hvers konar stjórn höfðu þátttakendur á áfengisneyslu sinni og hvers vegna? Hafði áfengisneyslan ákveðinn tilgang? Gögnum var safnað frá átta konum og fimm körlum með 56 rituðum lýsingum á skemmtanalífi þar sem áfengi var haft undir höndum. Þegar gögnin eru greind er stuðst við kenningar Simmils og Partanens um félagslyndi, kenningum Maffesolis um ættbálka á borgarvísu og hvernig sjálfsmynd er mynduð með tilliti til smekks og kenninga Foucaults um heterótópíu. Rannsóknin leiðir í ljós að drykkja þjónar þeim tilgangi að styrkja félagsleg sambönd og er mikilvægur þáttur í félagslyndi ungs fólks. Félagslyndið sem stundað er á börum í Reykjavík gerir fólki kleift að losa hömlur. Hópar eru sveigjanlegir og íslensku þátttakendurnur víluðu ekki fyrir sér að yfirgefa vinahópinn í leit að skemmtun eða til að skipta um andrúmsloft. Þessi niðurstaða er andstæð þeim siðareglum sem þátttakendur í sambærilegum rannsóknum í Helsinki, Osló og Stokkhólmi settu fram. Næturlífið í Reykjavík er þannig vettvangur þar sem að félagslegt auðmagn fólks getur aukist þegar það kynnist nýju fólki gegnum sameiginlega vini og kunningja. Sjálfstjórnin sem var viðhöfð vegna áfengisneyslu var háð hverjum viðburði fyrir sig og utanaðkomandi aðstæðum. Sjaldan var tekið tillit til heilsufarslegra áhrifa áfengis og óþægindi vegna timburmanna voru talin óhjákvæmilegur fylgifiskur skemmtanalífsins. 
 
Lykilorð: félagslyndi, áfengi, veitingastaðir og barir, frásagnir 
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is