Útdráttur og lykilorð

 
Kristín I. Pálsdóttir: Sor Juana svarar fyrir sig. Skáld, fræðikona og femínisti á 17. öld
 
Markmið þessarar greinar er að kynna fyrir íslenskum lesendum Juönu Ramírez de Asbaje (eða Asuaje), sem er þekkt undir trúarheitinu Sor Juana Inés de la Cruz. Hún var rithöfundur, heimspekingur, nunna og femínisti og bréf hennar, Svar til systur Filoteu af Krossi, er einstakt framlag til vestrænna bókmennta og sögu femínisma. 
Sor Juana var fædd í spænsku nýlendunni Nýja Spáni 1641 (eða 1648) og var af spænskum uppruna. Hún er mögulega mikilvægasti rithöfundur nýlendutímans í Mexíkó. Þar sem að menntun stóð konum ekki til boða á þeim tíma var hún að mestu leyti sjálfmenntuð. Hún orti ljóð og samdi leikrit, bæði andleg og veraldleg, og tilheyrði barokktímanum. Sor Juana gekk í klaustur um tvítugt, ekki vegna trúarlegrar köllunar heldur vegna þess að það var eini staðurinn þar sem hún átti möguleika á að halda áfram fræðilegri iðju sinni. 
Yfirboðurum Sor Juönu misbauð hvortveggja veraldleg skrif hennar og gagnrýni hennar á predikun eftir Antonio Viera. Þegar hún var ávítt opinberlega af biskupnum í Puebla, sem faldi sig bak við nunnunafnið Sor Philotea de la Cruz, og gagnrýndi hana fyrir afskipti af guðfræðilegum rökræðum, svaraði hún með Svarinu til systur Filoteu sem er grundvallarrit í vestrænum femínisma og þekkt sem yfirlýsing um þekkingarlegt frelsi kvenna í Norður– og Suður–Ameríku. 
 
Lykilorð: Sor Juana Inés de la Cruz, barokk, femínismi, nýlendutíminn í Mexíkó, bókmenntir, Spánn, 17. öld
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is