Valdarán að fornu og nýju

 

Valdarán eru fátíð á Íslandi, vægast sagt. Orðið valdarán er þó reglulega notað um atburði sem orðið hafa í sögunni. Á málstofunni verður fjallað um nokkur dæmi í þessa veru og önnur skyld þar sem vald kemur við sögu, með einum eða öðrum hætti.

Málstofustjóri: Guðni Th. Jóhannesson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (stofa 220 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði: Valdarán eða bylting? Hvað gerðist á Íslandi sumarið 1809?       
  • Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði: „Valdarán.“ Afstaða sjálfstæðismanna til fjölmiðlamálsins 2004 og synjunarvalds forseta Íslands
  • Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki: Þegar þjóðin tók völdin: Icesave og þjóðarábyrgð

Fundarstjóri: Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði

​Útdrættir:

Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði: Valdarán eða bylting? Hvað gerðist á Íslandi sumarið 1809?

Hvað gerðist á Íslandi sumarið 1809? Mjög hefur verið deilt um það hvað gerðist í raun og veru sumarið 1809 og nýjar kenningar líta stöðugt dagsins ljós. Var breska ríkisstjórnin hér að verki? Hver var þáttur Sir Joseph Banks, sem þekkti „byltingarmennina“? Áttu Íslendingar einhvern þátt í tilræðinu? Var virkilega verið að undirbúa gagn-byltingu gegn Jörgen Jörgensen og enskum yfirmönnum hans? Hér er tilefni til fjörugra umræðna.

Guðni Th. Jóhannesson, dósent í sagnfræði: „Valdarán.“ Afstaða sjálfstæðismanna til fjölmiðlamálsins 2004 og synjunarvalds forseta Íslands

Vorið 2004 lagði Davíð Oddsson forsætisráðherra fram stjórnarfrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum. Þetta var fjölmiðlafrumvarpið svonefnda sem olli þegar miklum deilum. Þingmenn stjórnarmeirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks studdu frumvarpið (fyrir utan tvo framsóknarmenn) og var það því samþykkt á Alþingi. Ólafur Ragnar Grímsson synjaði lögunum hins vegar samþykkar og beitti þannig þeim rétti forseta í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Var forseta stætt á því? Forysta Sjálfstæðisflokksins var viss um að svo væri ekki en hvað var þá til ráða? Í erindinu verður afstaða sjálfstæðismanna til synjunar forseta rakin og rætt um þá kosti sem þeim fannst vera uppi í hita leiksins.

Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki: Þegar þjóðin tók völdin: Icesave og þjóðarábyrgð

Stundum er sagt að í Icesave-málinu hafi þjóðin með fulltingi forseta Íslands í tvígang tekið völdin í sínar hendur. Ljóst er að Icesave-málið hefur bæði haft mikil áhrif á íslenskt lýðræði og er orðið hluti af þjóðarsögunni. Þjóðarábyrgð er sú sameiginlega siðferðilega ábyrgð sem almenningur ber á stefnu og athöfnum stjórnvalda sinna og samfélagsgerð. Spurt er hvort þjóðir geti yfirhöfuð borið slíka ábyrgð, hvort hún eigi við í Icesave-málinu, hvort þjóðin hafi þegar axlað hana með því að taka völdin í sínar hendur og hvers vegna sé mikilvægt að hún geri það. Hér verður einkum horft til kenninga Davids Millers, Philip Pettit og Peters Strawsons.

Færð eru rök fyrir því að stjórnvöld hafi brugðist því hlutverki sínu að gæta hagsmuna almennings og eigenda Icesave-reikninganna og að hefðu stjórnvöld haft siðferðilegar skyldur sínar að leiðarljósi, fremur en þrönga lagahyggju, hefðu þau getað komið í veg fyrir þetta hörmulega mál. Nú þegar Icesave-deilunni er lokið og rykið sest sé mikilvægt að axla þá ábyrgð að þjóðin skríði upp úr skotgröfunum og skoði málið á ný og læra af því svo fyrirbyggja megi að sambærilegir hlutir endurtaki sig í framtíðinni. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is