Velferð aldraðra - samgöngur og samskipti

Laugardaginn 15. mars kl. 10.30-12.00 í stofu 229 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands.

Líklegt er að eldra fólk muni hafa meiri tíma, betri heilsu, meiri menntun, meiri tækniþekkingu og betri fjárráð  en áður hefur þekkst hjá þessum aldurshópi. Þetta kallar á ný hlutverk og ný verkefni velferðarþjónustunnar auk þess sem stefnumörkun skipulags og samgangna þarf að taka viðeigandi breytingum. Hlutfall eldra fólks af íbúafjölda hækkar, tekjur af aldurshópnum munu aukast, útgjöld munu líka aukast, og menningarneysla þessa hóps mun aukast, sem og ferðir og flakk. Búseta verður hreyfanlegri vegna þessa.

Sagt verður frá nýjum innlendum rannsóknum og samstarfsrannsókn við stofnun í Suður Kóreu en þar vex hlutfall eldri borgara mjög hratt. Fyrst verður rætt um upplifun aldraðra á skorti á samgöngum og tengslum við aðstæður, umhverfi og persónugerð einstaklingsins. Þá verður sagt frá rannsóknum á nýjum viðfangsefnum velferðarþjónustunnar sem tengjast samfélagslegu öryggi og upplifun íbúa og eldra fólks sérstaklega. Samskipti og uppbygging á tengslum milli einstaklinga, milli hópa og milli staða, þar á meðal með nýjum samskiptamiðlum verða rædd. Gerð verður grein fyrir niðurstöðum nýrrar rannsóknar um tengslin á milli afa og ömmu og barnabarna og hvers konar aðstoð kynslóðirnar eru að veita hvor annarri. Einnig verður fjallað um kynjamun á samskiptum og hvernig kyn millikynslóðarinnar, þ.e. foreldra barnanna hefur áhrif á tengslin. Gagnkvæm aðstoð milli afa/ömmu og barnabarna getur haft áhrif á líðan beggja kynslóðanna og haft áhrif á skipulag velferðarþjónustu við báða aldurshópana.

Fyrirlesarar og titlar erinda:
  • Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræðideild HÍ: Áhrif aðstæðna og persónu á upplifun aldraðra á skorti samgöngukosta
  • Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri og lektor við félagsráðgjafardeild HÍ: Hreyfanleiki, samskipti og velferðartækni
  • Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent í félagsráðgjafardeild HÍ: Samskipti kynslóða, aðstoð og stuðningur

Málstofustjóri: Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir, iðjuþjálfi

Útdrættir:

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði: Áhrif aðstæðna og persónu á upplifun aldraðra á skorti samgöngukosta

Í Suður-Kóreu er búist við nærri tíföldun íbúa 65 ára og eldri á árabilinu 2000 til 2018. Mannfjöldaáætlun spáir því að einn af hverjum þremur íbúum Suður-Kóreu verði 65 ára eða eldri árið 2042. Það er því margt hægt að læra af þeirri þróun sem þar er að eiga sér stað. Hér er lýst rannsókn á 812 einstaklingum sem svöruðu ítarlegri könnun með 160 spurningum um einstaklinginn og aðstæður í þeim tilgangi að kanna upplifun aldraðra á skorti samgöngukosta, sem hér er skilgreindur út frá svörum sem sýna að viðkomandi einstaklingur getur stundum eða oft ekki tekið þátt í athöfnun utan heimilis vegna skorts á samgöngukostum.  Niðurstöðurnar sýndu betri stöðu þeirra sem þekkja vel til almenningssamgangna, hafa búið lengi á sama stað, og þar sem samfélagsmiðstöðvar eldri borgara eru í göngufæri. Verri stöðu höfðu elstu einstaklingarnir, 75 ára og eldri, þeir sem voru líkamlega skertir, og karlmenn sem hætt höfðu akstri einkabifreiða. Einna helst þarf að bæta gönguumhverfi og almenningssamgöngur, þar með talið upplýsingatækni svo hún henti eldri borgurum betur.

Halldór S. Guðmundsson, framkvæmdastjóri og lektor í félagsráðgjöf: Hreyfanleiki, samskipti og velferðartækni

Líklegt er að eldra fólk muni hafa meiri tíma, betri heilsu, meiri menntun, meiri tækniþekkingu og betri fjárráð  en áður hefur þekkst hjá þessum aldurshópi. Þetta kallar á ný hlutverk og ný verkefni velferðarþjónustunnar. Hlutfall eldra fólks af íbúafjölda hækkar, tekjur af aldurshópnum munu aukast, útgjöld munu líka aukast, og menningarneysla þessa hóps mun aukast, sem og ferðir og flakk. Búseta verður hreyfanlegri vegna þessa. Samfélagslegt öryggi og upplifun íbúa og eldra fólks sérstaklega, mun að líkindum verða stórt viðfangsefni – samhlið uppbyggingu á trausti. Félagsleg samskipti og uppbygging á tengslum milli einstaklinga, milli hópa og milli staða, verða því viðfangsefni velferðarþjónustunnar.  Velferðartækni og samskiptamiðlar munu skipa mikinn sess í velferð eldra fólks í framtíðinni sem og aðgengi að vegakerfi tækninnar.

Sigurveig H. Sigurðardóttir, dósent í félagsráðgjöf: Samskipti kynslóða, aðstoð og stuðningur

Rannsóknir öldrunarfræða hafa sýnt að góð félagsleg tengsl eru eldra fólki mikilvæg og skipta máli varðandi velferð þeirra. Fjölskyldurannsóknir hafa einnig lagt áherslu á mikilvægi góðra tengsla barna og ungmenna við afa sína og ömmur. Aukið langlífi hefur áhrif á samband kynslóðanna og tíminn sem afar og ömmur eiga með barnabörnum sínum er lengri en áður var. Í erindinu verður fjallað um mikilvægi þessara tengsla og meðal annars gerð grein fyrir niðurstöðum nýrrar rannsóknar um tengslin á milli afa og ömmu og barnabarna og hvers konar aðstoð kynslóðirnar eru að veita hvor annarri. Einnig verður fjallað um kynjamun á samskiptum og hvernig kyn millikynslóðarinnar, þ.e. foreldra barnanna hefur áhrif á tengslin. Gagnkvæm aðstoð milli afa/ömmu og barnabarna getur haft áhrif á líðan beggja kynslóðanna og haft áhrif á skipulag velferðarþjónustu við báða aldurshópana.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is