Víðáttur og (villi)dýr

 

Málstofan fjallar um náttúru Íslands og umhverfismál frá mörgum ólíkum hugvísindalegum sjónarhornum. Viðfangsefnin eru fjölbreytt en með nokkrum þemum sem tengja erindin saman, þar á meðal umfjöllun um öræfin, fagurferði, hið háleita, hið villta, umhverfisminni og viðhorf til dýra, bæði villtra og taminna.  Í lok málstofunnar verður pallborð þar sem fyrirlesarar munu beina sjónum sínum að stöðu og þróun umhverfishugvísinda á Íslandi og þar meðal annars ræða um einkenni þeirra sem fræðasviðs, mikilvægustu viðfangsefni þeirra bæði í íslensku og alþjóðlegu samhengi og um kosti og galla þverfræðilegra nálgana í umhverfishugvísindum.

 

 

Málstofustjóri: Þorvarður Árnason

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Laugardagur 12. mars kl. 10-12 (hátíðarsalur í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun: Himinhvolfið og gagnvirk miðlun goðafræðinnar
  • Sveinn Yngvi Egilsson prófessor: Hafkvæði Einars Benediktssonar
  • Edda Ruth Hlín Waage, lektor í land- og ferðamálafræði: Forsendur í náttúruvernd: Friðun æðar og álftar
  • Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetrið á Hornafirði: Hin skemmtilega dýrafræði Þórbergs Þórðarsonar

Laugardagur 12. mars kl. 13.00-14.30 (hátíðarsalur í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Jón Yngvi Jóhannsson, lektor á Menntavísindasviði: Maður og dýr á fjöllum. Um náttúruna í Aðventu Gunnars Gunnarssonar
  • Árni Daníel Júlíusson, sagnfræðingur við Þjóðminjasafnið: Vannýtt hálendi? Um nýtingu miðhálendisins til beitar á 15.-18. öld
  • Unnur Birna Karlsdóttir, sérfræðingur við stofnun Rannsóknasetra, á Austurlandi: Öræfin faðmvíð og fjallablá. Um hreindýr og hálendi Austurlands

Laugardagur 12. mars kl. 15.00-16.30 (hátíðarsalur í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknasetursins á Hornafirði: Óbyggð víðerni – eða verndun hins villta í náttúru Íslands
  • Guðbjörg Rannveig Jóhannesdótti, aðjunkt við Listaháskóla Íslands og nýdoktor: Staður fyrir fagurferðilegt gildi landslags í umræðu um náttúrusýn, náttúruvernd og náttúrunýtingu

Pallborðsumræður um umhverfishugvísindi, með þátttöku allra fyrirlesara á málstofunni.

Fundarstjóri: Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknasetursins á Hornafirði

Útdrættir:

Gísli Sigurðsson, rannsóknarprófessor á Árnastofnun: Himinhvolfið og gagnvirk miðlun goðafræðinnar

Í minnisfræðum er talað um hvernig umhverfið, hús og landslag, persónur og ættir geta verið e.k. hengjur fyrir minnið og tengst við sögur hvers konar og haldið þeim saman. Það er auðvelt að setja umhverfið á himninum inn í þetta módel því að þar, ekki síður en á jörðu niðri, er nóg af „stöðum“ sem kalla fram heiti og sögur. Í erindi mínu mun ég taka saman hvað sagt er í Gylfaginningu Snorra Eddu að sé bókstaflega „á himni“. Ég mun flokka þær tilvísanir niður til að fá tilfinningu fyrir því hvað himinhvolfið, eins og það blasir við með berum augum, er mikilvægur þáttur í þessum frásögnum og þeirri heimsmynd sem þær teikna upp. Ein mikilvæg ályktun sem draga má af þessari rannsókn er að hlutverk himinhvolfsins fyrir goðafræðina gæti skýrt af hverju goðsögurnar lifðu góðu lífi löngu eftir að heiðin trúarbrögð lögðust af.

Sveinn Yngvi Egilsson prófessor: Hafkvæði Einars Benediktssonar

Hafið er grunnmynd í skáldskaparheimi Einars Benediktssonar og afl þess eða bylgjuhreyfing er í senn efnislegt og huglægt fyrirbæri. Í fyrirlestrinum verða myndir hafsins í kvæðum Einars kannaðar og túlkaðar með hliðsjón af þeirri orðræðu sem kennd er við hið háleita (súblíma). Hafið og tengdar myndir þess koma víða við sögu í verkum skáldsins og skilgreina mannlegt hlutskipti. Sjálfið speglar sig í hafinu og vex fyrir vikið eins og sjá má með samanburði við verk Walts Whitman. Háleit orðræða hafs og vatns birtist ekki aðeins í náttúrulýsingum Einars heldur einnig í borgar- og tæknilýsingum hans. Þannig gengst hann við nútímanum sem skáld hins háleita. Loks eru sum kvæði hans svo sjónræn að þau minna helst á verk myndlistarmanna eins og rakið verður í fyrirlestrinum. Höfundarverk hans tekur að mörgu leyti mið af hafinu eins og ráða má af þeim nöfnum sem hann kaus kvæðabókum sínum. Einar var öðru fremur sjávarskáld og varði síðustu æviárunum í nábýli við þá höfuðskepnu sem hann helgaði skáldskap sinn.

Edda Ruth Hlín Waage, lektor í land- og ferðamálafræði: Forsendur í náttúruvernd: Friðun æðar og álftar

Sögu náttúruverndar á Íslandi hafa enn sem komið er verið gerð takmörkuð skil. Markmið þess verkefnis sem hér er kynnt er að rýna í sögu náttúruverndar í þeim tilgangi að leiða í ljós þær forsendur sem byggja á huglægari gildum en náttúruvísindin ein og sér alla jafna gera ráð fyrir. Í þessu erindi verður tæpt á friðunarsögu tveggja fuglategunda, æðarfuglsins annars vegar og álftarinnar hins vegar, og hún sett í menningarsögulegt samhengi. Með tilvísun í lagaákvæði sem snúa að verndun þessara tegunda, allt frá þjóðveldisöld fram á byrjun 20. aldar, sem og í aðrar samtímaheimildir, verður fjallað um merkingu þessara fuglategunda, bæði með tilliti til samfélags hvers tíma en einnig með tilliti til þróunar í náttúruvernd.

Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Rannsóknasetrið á Hornafirði: Hin skemmtilega dýrafræði Þórbergs Þórðarsonar

Í Ofvitanum setur Þórbergur Þórðarson fram beitta gagnrýni á kennsluhætti og kennslubækur sem hann kynntist í námi sínu við Kennaraskólann veturinn 1909-1910. Þar kallar hann meðal annars eftir „skemmtilegri dýrafræði“ sem lætur „sköpulag dýranna eins og speglast í lifandi frásögn af sálarlífi þeirra, vitsmunum, gáfnafari, skapgerð, lifnaðarháttum, lífsbaráttu, starfi og starfsaðferðum, lærdómsiðkunum, leikum, ferðalögum, ástalífi, í staðinn fyrir að vera að telja í þeim beinin og reikna hárin á skrokknum á þeim“. Í fyrirlestrinum verður sýnt hvernig Þórbergur útfærir sjálfur slíka dýrafræði í bernskuminningum sínum, Í Suðursveit. Sambúð manna og dýra er víða lýst í Suðursveitarbókunum og þær lýsingar eru mikilvægur þáttur þeirrar lífrænu heildarhyggju sem bækurnar hvíla á.

Jón Yngvi Jóhannsson, lektor á Menntavísindasviði: Maður og dýr á fjöllum. Um náttúruna í Aðventu Gunnars Gunnarssonar

Skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, Aðventa, er vinsælasta verk höfundarins, bæði á Íslandi og erlendis og það verka hans sem fræðimenn hafa fjallað hvað mest um. Löngum hafa sjónir fræðimanna beinst að trúarlegum og tilvistarlegum þætti sögunnar og hefur fræðimenn greint nokkuð á um túlkun sögunnar að þessu leyti. Í fyrirlestrinum verður reynt að nálgast Aðventu frá annarri hlið. Fjallað verður um náttúrúsýn sögunnar eins og hún birtist annars vegar í lýsingum sögumanns á umhverfi sögunnar, hálendinu sem Benedikt ferðast um, og hins vegar í samskiptum Benedikts og ferðafélaga hans, hundsins Leó, forystusauðarins Eitils og fleiri dýra. Í Aðventu má greina tvenns konar viðhorf til náttúrunnar, annars vegar lífhyggju þar sem hálendið í skynjun sögumanns og aðalpersónu sögunnar er skynjað sem lifandi heild, hins vegar má greina í sambandi aðalsöguhetjunnar við dýrin samband sem einkennist af flóknu samspili félagsskapar, þjónustu og nytjahyggju. Í fyrirlestrinum verða þessar tvær hliðar á náttúrunni settar í samhengi við nútímalegar hugmyndir um verðmæti hálendisins annars vegar og sjálfbærni hins vegar.

Árni Daníel Júlíusson sagnfræðingur við Þjóðminjasafnið: Vannýtt hálendi? Um nýtingu miðhálendisins til beitar á 15.-18. öld

Á 15. öld fór að bera á því að bændur neituðu að reka lömb sín til beitar á afréttarsvæði á miðhálendinu. Landeigendur höfðu haft tekjur af hálendisbeit, vildu ekki missa tekjurnar og höfðuðu mál gegn bændum fyrir samningsbrot. Málum af slíku tagi fjölgaði eftir pláguna síðari 1494 og stóðu deilur af þessu tagi langt fram á 17. öld. Ýmsar athyglisverðar upplýsingar um afdrif slíkrar hálendisbeitar er að finna í Jarðabók Árna og Páls, og verða nokkur dæmi um beit eða beitarleysi á hálendinu sem þar er að finna rakin, aðallega úr Húnavatnssýslu, Árnessýslu og Þingeyjarsýslu, svo og samhengi þeirra við eldri málarekstur.

Unnur Birna Karlsdóttir, sérfræðingur við stofnun Rannsóknasetra, á Austurlandi: Öræfin faðmvíð og fjallablá. Um hreindýr og hálendi Austurlands

Í fyrirlestrinum er fjallað um viðhorf til hálendisins eins og þau birtast í lýsingum úr ferðum á slóðir hreindýra á öræfunum norðan Vatnajökuls á árunum 1939-1944. Skoðað er hvernig þessir leiðangrar, nánar tiltekið ferðasögurnar úr þeim, geta nýst okkur sem heimild um samband manns og hálendisnáttúru Íslands og falið í sér vitnisburð um  stefnur og strauma í viðhorfum til öræfanna í víðara samhengi en því sem aðeins snýr að sjálfu ferðalagi skrásetjarans.  Einnig verður fjallað um markmið leiðangranna en þeir ullu merkilegum kaflaskiptum í sögu hreindýra hér á landi. Síðast en ekki síst verður dregið fram hvern sess hreindýrin höfðu í huga leiðangursmanna og hvernig þau viðhorf féllu að hugmyndum þeirra um íslenska náttúru.

Þorvarður Árnason​, forstöðumaður Rannsóknasetursins á Hornafirði: Óbyggð víðerni – eða verndun hins villta í náttúru Íslands

Víðerni Íslands hafa verið bitbein í náttúruverndarumræðu um töluverða hríð. Takast þar á nokkrar ólíkar fylkingar og eru skiptar skoðanir bæði um eðli víðernanna og um fyrirkomulagverndaraðgerða. Verndun víðerna komst fyrst formlega á dagskrá á Íslandi eftir samþykkt náttúruverndarlaga nr. 44/1999. Sú skilgreining sem þar er lögð til grundvallar er á margan hátt meingölluð og á að líkindum töluverðan þátt í því að kynda undir deilur um víðernin, sérstaklega þó á Miðhálendinu. Í erindinu verður rætt um hugtakið „víðerni“ (e. wilderness) og hvernig beri helst að skilja það, bæði í alþjóðlegu samhengi og út frá margvíslegri sérstöðu íslenskrar náttúru og náttúruverndarumræðu.

Guðbjörg Rannveig Jóhannesdóttir aðjunkt við Listaháskóla Íslands og nýdoktor: Staður fyrir fagurferðilegt gildi landslags í umræðu um náttúrusýn, náttúruvernd og náttúrunýtingu

Fagurferðilegt gildi landslags hefur á síðustu áratugum ekki skipað stóran sess í ákvarðanatöku um náttúruvernd eða nýtingu þrátt fyrir að það sé eitt af mikilvægustu gildum sem íslensk náttúra býr yfir. Fegurð íslenskrar náttúru leikur lykilhlutverk í náttúrusýn okkar og þeirri ímynd sem við tengjum okkur gjarnan við í gegnum sýn annarra á íslenska náttúru. Í erindinu mun ég skoða hvernig misþröng sjónarhorn á náttúruvernd og nýtingu birtast í því hvaða gildi og viðmið eru tekin til greina í ákvarðanatöku, og færa rök fyrir því að víkka þurfi út þau kerfi sem við höfum til að taka ákvarðanir þannig að gildi náttúrufegurðar rúmist innan þeirra. Fyrsta skrefið til þess að skapa rými fyrir landslag og fegurð í umræðu um ákvarðanatöku í umhverfismálum felst í því að skilja og skilgreina hugtökin landslag, fegurð og fagurferðilegt gildi. Í erindinu mun ég beina sérstakri athygli að því að skýra tengslin á milli þessara hugtaka í samhengi heims-, þjóðar- og nærumhverfis.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is