Vísindabyltingar

 

Ritið Vísindabyltingar (e. The Structure of Scientific of Revolutions) var útgefið 1962 og er eitt áhrifamesta heimspekirit 20. aldar. Á síðasta ári kom þetta merka rit út á íslensku í þýðingu Kristjáns G. Arngrímssonar og með inngangi eftir Eyju Margréti Brynjarsdóttur. Í tilefni þessarar útgáfu verður málstofa helguð þeim hugmyndum er birtast í riti Kuhn, greint frá gagnrýni á þær og víðtækum áhrifum þeirra.

Málstofustjóri: Huginn Freyr Þorsteinsson

Fyrirlesarar og titlar erinda:

Föstudagur 11. mars kl. 13.15-14.45 (stofa 218 í Aðalbyggingu Háskóla Íslands):

  • Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur við Heimspekistofnun: Vísindabyltingar og heimsmyndir
  • Kristján G. Arngrímsson framhaldsskólakennari: Sannleikur hugvísindanna
  • Huginn Freyr Þorsteinsson aðjunkt: Ósammælanleiki vísindakenninga

​Fundarstjóri: Stefán Pálsson sagnfræðingur

Útdrættir:

Eyja Margrét Brynjarsdóttir, sérfræðingur við Heimspekistofnun: Vísindabyltingar og heimsmyndir

Kuhn talar um mismunandi heima fyrir og eftir vísindabyltingu en áhöld hafa verið um hvernig beri að túlka þau orð hans. Sumir hafa talið þau til merkis um einhvers konar afstæðishyggju af hans hálfu meðan aðrir telja hann vera að tala um heimsmyndir. Sjálfur sór Kuhn af sér afstæðishyggju, til dæmis í verkum sem hann skrifaði nokkru eftir að Vísindabyltingar komu út þar sem hann útskýrir nánar hvað hann átti við, en virðist stundum lenda í mótsögn við sjálfan sig með tali um heima og heimsmyndir. Hér verður þetta skoðað nánar.

Kristján G. Arngrímsson framhaldsskólakennari: Sannleikur hugvísindanna

Hvers konar heimspeki er að finna í Vísindabyltingum? Gerist Kuhn þar sekur um afstæðishyggju og jafnvel andskynsemishyggju, með því að leiða alveg hjá sér spurningar um sannleika vísindanna? Bent hefur verið á að bókin hafi að geyma lýsandi (descriptive) heimspeki en ekki leiðandi (normative), sem ætti eitt og sér að duga til að sýna að þessi gagnrýni er á misskilningi byggð, en dýpri vangaveltur um sannleikshugtakið geta varpað enn skýrara ljósi á þá heimspeki sem er að finna í þessu verki Kuhns. Í þessum lestri bendi ég á að heimspeki er hugvísindi og hafnar kröfu raunvísindanna um að mega ein skilgreina sannleikann.

Huginn Freyr Þorsteinsson aðjunkt: Ósammælanleiki vísindakenninga

Fræg er notkun Kuhns á myndum úr Gestalt sálfræði til að lýsa þeim miklu umskiptum sem verða við vísindabyltingu. Tveir einstaklingar geta horft á sömu myndina en séð mismunandi hluti til að mynda önd eða kanínu. Við það að einhver sér svo önd í stað kanínu áður verður breytingin fullkomin þ.e. kanínan sést ekki lengur heldur er skýr mynd af önd. Á þennan hátt taldi Kuhn vísindakenningar vera ósammælanlegar þ.e. ekki er til sameiginlegur mælikvarði til þess að bera saman vísindakenningar. Þessi skoðun hefur víðtæk áhrif á því hvernig nálgast á vísindasögu og í erindi mínu mun ég fjalla um mismunandi tegundir af ósammælanleika sem koma fram í riti hans Vísindabyltingar. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is