Yelena Sesselja Helgadóttir Yershova

Tölvupóstfang: sesselja@hi.is

 

Doktorsnám: Íslenskar bókmenntir

 

Leiðbeinandi: Vésteinn Ólason

 

Heiti doktorsverkefnis: Íslenskar þulur síðari alda

 

Um doktorsverkefnið:

 

Í doktorsverkefninu felst rannsókn og lýsing á þulum síðari alda (15.–20. öld) ásamt undirbúningi að útgáfu á þulum sem byggi á vísindalegum forsendum.

 

Þulur síðari alda eru romsukennd þjóðkvæði sem lúta fáum bragfræðilegum reglum, einkennast af endurtekningum með tilbrigðum og eru síbreytilegar í flutningi. Þær eru einstæð þjóðkvæðagrein sem stendur nálægt formúlukveðskap. Í rannsókninni er tekið sérstakt tillit til stöðu þulna í bókmenntasögulegu samhengi, m.a. með tilliti til annarra íslenskra munnmennta og bókmenntagreina, sambærilegs kveðskapar á öðrum Norðurlöndum og þróunar hefðarinnar frá fornum þulum til nútíðar. Reynt er að varpa ljósi á sérkenni íslenskrar þuluhefðar og gefa yfirsýn yfir langa þróunarsögu hennar.

 

Rannsókn á þulum er aðallega fólgin í athugun á flutningi þeirra og í greiningu á bragformi þeirra og byggingu, einkum á þeim grunneiningum sem mynda síbreytilegan texta þulna, þ.e. á heitum og mótífum, ásamt tengslum milli þeirra. Samanburðarrannsókn á íslenskum þulum og kveðskap nágrannaþjóða (einkum færeyskum skjaldrum) og á breytingum á íslenskum þulum í aldanna rás er einnig hluti verkefnisins. Úr niðurstöðum greiningarinnar er unnið m.a. með aðferðum þjóðfræði, bókmenntafræði og sögulegrar skáldskaparfræði með hliðsjón af aðferðum handritafræði. Þulutextar eru sóttir í frumheimildir: handrit og upptökusafn Stofnunar Árna Magnússonar. Reynt er að ná til flestra þeirra sem eru til á pappír eða spólum og varðveisluskilyrðum þeirra er lýst. 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is