2014

3. hefti - Skjámenning

Í þriðja hefti Ritsins 2014 er leitast við að kanna stöðu skjámenningar í íslensku, alþjóðlegu og sögulegu samhengi. Meðal efnis er fyrsta greinin sem skrifuð er á íslensku á sviði leikjafræða (e. game studies), „Frásögn eða formgerð? Tölvuleikir, leikjamenning og umbrot nýrrar fræðigreinar“, en þar fjalla Björn Þór Vilhjálmsson og Nökkvi Jarl Bjarnason um djúpstæðan skoðanaágreining sem mótaði upphafsár leikjafræðinnar og halda því fram að eftirköstin hafi haft meiri áhrif á þróun fræðigreinarinnar en jafnan er gert ráð fyrir. Jóhanna Gunnlaugsdóttir kynnir niðurstöður rannsóknar um notkun starfsfólks á samfélagsmiðlum meðan á vinnutíma stendur í greininni „Skjámenning og netnotkun vegna einkaerinda á vinnutíma“, en samfélagsmiðlar af ýmsu tagi – en þó einkum Facebook – gegna sífellt stærra hlutverki í lífi flestra, svo stóru raunar að erfitt getur verið að segja skilið við þá meðan við erum í vinnunni. Þriðja greinin, „Frá framúrstefnu til hátíðarmynda: Um skilgreingarvanda kvikmyndarinnar í ljósi módernískra hefða“, er umfjöllun Björns Ægis Norðfjörð um óhefðbundnar kvikmyndir og ýmsa kosti við flokkun þeirra. Tæknin breytist og skjástærð tækjanna sem við notum til að horfa á kvikmyndir taka stökkbreytingum; í sumum tilvikum stækka þeir umtalsvert (flatskjáir fyrir heimilið eru komnir í 100 tommur) en í öðrum minnkar myndflöturinn gríðarlega (margir horfa á myndefni í símanum sínum eða iPoddinum). En hvort sem horft er á 7 tommu skjá eða 100 tommu, og hvernig sem umgjörð tækjabúnaðarins breytist að öðru leyti, þá er það ekki síst hefðarveldið sem heldur velli á skjánum og Björn Ægir ræðir um þær kvikmyndir sem hafa gjarnan þótt vera í framvarðarsveit formsins.

Þrjár ritrýndar greinar birtast utan þema. Svavar Hrafn Svavarsson skrifar um umbyltingu í hugmyndaheimi Forngrikkja er lýtur að hamingjuhugtakinu og heldur því fram að hvörfin sem þá urðu marki upphaf heimspekilegrar siðfræði. Guðni Elísson fjallar um „Vantrúar-málið“ í ljósi spurninga um akademískt frelsi og Hjalti Hugason um nauðsyn þess að gaumgæfa þau heiti sem viðhöfð hafa verið í rannsóknum á trúmálahræringum hér á landi og í norðanverðri Evrópu á 16. öld. Tveir ritdómar birtast í þessu hefti. Ragnhildur Hólmgeirsdóttir hefur sitthvað að segja um Ástarsögu Íslendinga að fornu eftir Gunnar Karlsson. Síðari ritdóminn mætti jafnvel kalla átakasama hugleiðingu en þar fjallar Hildur Lilliendahl Viggósdóttir um Kötu eftir Steinar Braga.

Tvær þýðingar birtast og falla báðar undir skjámenningarþemað. „Hvað einkennir tölvuleikjagreinar? Vangaveltur um greinafræði eftir rofið mikla“ eftir David Clearwater er í senn merkilegt uppgjör við leikjafræðin og kortlagning á því hvert skuli nú halda. Þá birtist ennfremur þýðing á inngangskafla ritsins Media, Society, World: Social Theory and Digital Media Practice eftir Nick Couldry. Couldry leggur áherslu á að skoða eigi miðlun sem iðkun, þ.e. sem hluta af vanabundinni hegðun mannsins á jörðinni. Þetta er nálgun sem hefur verið mjög ráðandi síðustu árin og óhætt er að segja að það hafi verið Couldry sjálfur sem lagði línurnar fyrir hana í grein sem birtist árið 2004 í Social Semiotics, „Theorising Media as Practice“, en kaflinn sem hér er þýddur er einmitt endurskoðuð útgáfa af þessari grein.

Ritstjóri er Björn Þór Vilhjálmsson.

 

2. hefti - Mannslíkaminn

Í öðru hefti Ritsins árið 2014 er þemað mannslíkaminn. Undir því birtast fimm greinar sem spanna meðal annars flokkun á fólki eftir líkamseinkennum, hvað sé leyfilegt eða viðurkennt að gera við líkama sinn eða með honum og það hvernig líkaminn og ummerki hans eru notuð til tjáningar.

Í fyrstu þemagreininni, „Eitt, tvö, þrjú kyn: Þverfræðilegar hugleiðingar um óljóst kyn og óvenjulega líkama“, segir Sólveig Anna Bóasdóttir frá nýlegum lögum í Þýskalandi sem heimila að börn sem eru úrskurðuð intersex við fæðingu séu skráð „þriðja kyns“ og veltir upp ýmsum hugmyndafræðilegum spurningum um hið hefðbundna kynjalíkan menningarheims okkar. Hrafnkell Lárusson skrifar í grein sinni „Dularfullur og forboðinn dauði“ um viðhorf til sjálfsvíga á Íslandi á 17. og 18. öld eins og þau birtust í kristnum kenningum, þjóðtrú og lagasetningu. Þriðja þemagreinin, „Staðinn að verki: Snertifletir málverksins“, er eftir Önnu Jóhannsdóttur og fjallar um líkamlega nærveru listamannsins eins og hún birtist í módernískum áherslum í pensiltækni. Alda Björk Valdimarsdóttir sýnir okkur mismunandi birtingarmyndir rithöfundarins Jane Austen í grein sinni „Líkami Austen: Ímyndin og hjónabandið“. Í síðustu þemagreininni, „Legofsi og hjónabandsmas: Vergirni, móðursýki og nútími í Straumrofi Halldórs Laxness“, skrifar Björn Þór Vilhjálmsson um orðspor og viðtökur þessa leikrits frá 1934, sem þótti á sínum tíma hneykslanlegt vegna opinskárrar umfjöllunar um kynhvöt og kynferðisathafnir kvenna.

Í heftinu birtast einnig þrjár greinar utan þema. Höskuldur Þráinsson skrifar í grein sinni „Málvernd, máltaka, máleyra – og PISA-könnunin“ um þær aðferðir sem gjarnan er beitt til að stuðla að varðveislu íslensks máls og leggur til leiðir sem hann telur taka betur mið af máltöku barna. Helga Björnsdóttir fjallar um hernaðarhyggju, hervæðingu og karlmennskuhugmyndir í grein sinni „Hernaðarlúkk“. Lokagrein heftisins er síðan þverfagleg ritsmíð þeirra Björns Þorsteinssonar, Edwards H. Huijbens og Gunnars Þórs Jóhannessonar, „Ylrækt rísómatískra sprota: Ferðaþjónusta í nýju ljósi“. Greinin er byggð á erindum þeirra þriggja sem þeir héldu á málstofu um ferðaþjónustu á Hugvísindaþingi 2013 og fjallar um það hvernig markaðssetning er notuð til að skapa söluvæna vöru úr náttúru og menningu landsins með því að þvinga fram merkingu úr óræðri mergð.

Ritstjórar eru Björn Þór Vilhjálmsson og Eyja Margrét Brynjarsdóttir.

 

 

1. hefti - Vesturheimsferðir í nýju ljósi

Ímyndir, sjálfsmyndasköpun, varðveisla íslensks menningararfs og þvermenningarleg yfirfærsla eru áleitin efni í greinunum sem valdar voru í þetta hefti Ritsins um Vesturheimsferðir í nýju ljósi. Það er þó aðeins þriðja alda íslenskra útflytjenda til Ameríku eftir miðja nítjánda öld sem er nafngreind með þeim hætti að ætla mætti að ekkert rof hafi orðið við búferlaflutning þeirra til annarrar heimsálfu – þeir hafi áfram verið Íslendingar. Fyrstu „vesturfararnir“ kölluðust Utah-farar eða mormónar, þá komu Brasilíufarar, en þegar Íslendingar fluttu unnvörpum til Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada varð skyndilega útvíkkun á þjóðarvitund Íslendinga og Ísland sjálft endurnýjaðist: það urðu til Vestur-Íslendingar og Nýja Ísland.

Sex fræðilegar greinar eru í Ritinu um meginþema þess. Jón Hjaltason veltir fyrir sér hvers vegna stórflutningar Íslendinga til Brasilíu mistókust og Eyrún Eyþórsdóttir og Kristín Loftsdóttir skoða hvaða þátt íslensk arfleifð á í sjálfsmynd afkomenda Brasilíufaranna. Ólafur Arnar Sveinsson rannsakar hvernig sendibréf vesturfara geta leitt í ljós þróun einstaklingsbundinnar sjálfsmyndasköpunar, „í baráttu við nýja heimalandið og togstreitu við það gamla“. Ágústa Edwald fjallar um fornleifarannsóknir sínar á bænum Víðivöllum í Nýja Íslandi. Dagný Kristjánsdóttir veitir í grein sinni innsýn í viðhorf til bernskunnar sem lesa má úr íslenskum barnablöðum sem gefin voru út í Vesturheimi á árunum 1898–1940. Úlfar Bragason kannar mismunandi þjóðlegar sjálfsmyndir hjá Íslendingum og Vestur-Íslendingum í tengslum við lýðveldisstofnunina 1944.

Einnig er í Ritinu þýðing á grein eftir rithöfundinn Kristjönu Gunnars um hugmyndir um „eignarnám“ eða „yfirtöku“ á rödd og sjálfsmynd á milli menningarhópa þegar innflytjendur eða jaðarinn aðlagast menningu miðjunnar.

Þá eru í þessu Riti hugleiðingar Guðbergs Bergssonar um það hvernig Íslendingaslóðir í Kanada, sem ímyndunaraflið, jólablöðin og munnmæli höfðu skapað á uppvaxtarárum hans, reyndust vera þegar hann sjálfur fór þangað.

Ritið birtir fjölda ljósmynda eftir Guðmund Ingólfsson sem hann tók í Íslendingabyggðum vestra 1994. Forsíðumynd Guðmundar frá Mountain í Norður-Dakóta frá 1999 sýnir glögglega að víkingaarfleifðin er sameiginleg afkomendum Íslendinga í Vesturheimi og Austur-Íslendingum.

Að lokum er í Ritinu utan þema þess svargrein Írisar Ellenberger og Svandísar Önnu Sigurðardóttur við umræðugrein Ármanns Jakobssonar um gleðigönguna Gay Pride, sem var birt í síðasta hefti Ritsins 2013.ir í nýju ljósi

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is