2016

 

Hugvísindaþing 2016

Hugvísindaþing er árviss ráðstefna Hugvísindastofnunar þar sem fram er borið það helsta í fræðunum í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Þingið var fyrst haldið árið 1996 og er því 20 ára í ár.

Stjórn Hugvísindastofnunar samþykkti tillögur að 150 erindum í tæplega 40 málstofum á fundi sínum 4. febrúar 2016. Spurningar um umhverfis- og loftslagsmál eru áberandi í dagskrá þingsins í ár og verður þingið opnað með fyrirlestri um umhverfishugvísindi.

Hátíðarfyrirlesarinn er Steven Hartman, prófessor í enskum bókmenntum við Háskólann í Mið-Svíþjóð þar sem hann stjórnar miðstöð um umhverfishugvísindi (ECOHUM). Hann leiðir norrænt net í þverfaglegum umhverfisvísindum (NIES) og er meðstjórnandi samstarfsnets um norðurskautssvæðið (Circumpolar Networks). Undanfarið hefur Steven fengist við kortlagningu umhverfismeðvitundar og umhverfisminnis í bókmenntum, unnið að því að auka vægi hugvísinda í rannsóknum á hnattrænum breytingum og að hvetja fólk, í gegnum samstarf vísinda- og listamanna, til að bregðast við loftslagsbreytingum.

 

Dagskrá Hugvísindaþings

Setning Hugvísindaþings fer fram í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskóla Íslands föstudaginn 11. mars.

  • 12.30-12.35: Guðmundur Hálfdanarson, forseti Hugvísindasviðs, setur þingið.
  • 12.35-13.00: Hátíðarfyrirlestur: Steven Hartman, prófessor í enskum bókmenntum við Háskólann í Mið-Svíþjóð: „New Horizons of the Environmental Humanities“ („Ný framtíðarsýn umhverfishugvísinda“).

Málstofur verða haldnar í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 11. mars frá 13.15-17.15 og laugardaginn 12. mars frá 10.00 til 16.30. Léttar veitingar verða í boði að þingi loknu.

Samhliða Hugvísindaþingi halda samtök norrænna leiklistarfræðinga (Association of Nordic Theatre Scholars) og Bókmennta- og listfræðastofnun ráðstefnuna Theatre and the Popular. Ráðstefnan hefst föstudaginn 11. mars kl. 10:00 og lýkur sunnudaginn 13. mars kl. 16:30. Sjá dagskrá hér.

Ráðstefnan samanstendur af átta málstofum og vinnustofu með Elaine Aston, prófessor við Lancaster háskóla. Málstofur ráðstefnunnar eru öllum opnar, en vinnustofan er aðeins opin skráðum þátttakendum. Nánari upplýsingar eru hér.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is