Hlutverk og starfsemi

Hugvísindastofnun er vísindaleg rannsóknastofnun sem starfrækt er af Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún tók til starfa árið 1998 og starfar eftir reglum sem birtar voru í Stjórnartíðindum í desember 2010 og tóku við af eldri reglum.

Stofnunin aðstoðar starfsmenn Hugvísindasviðs og stjórnendur aðildarstofnana við styrkumsóknir, umsýslu rannsóknaverkefna og önnur verkefni sem tengjast rannsóknum á sviðinu, svo sem fundi, ráðstefnur og útgáfu. Einnig kynnir hún rannsóknir sviðsins út á við í samvinnu við kynningarstjóra Hugvísindasviðs.

Hugvísindastofnun hefur staðið fyrir árlegu Hugvísindaþingi frá 1999.

Bókaútgáfa innan sviðsins er í flestum tilvikum á vegum aðildarstofnananna en Hugvísindastofnun gefur út tímaritið Ritið sem hóf göngu sína í árslok 2001. Haldin hafa verið fjölmörg málþing og málstofur í tengslum við útgáfuna.


Aðrar stofnanir innan Hugvísindasviðs eru aðildarstofnanir Hugvísindastofnunar. Þær eru nánar kynntar annars staðar á vefnum.

Forseti fræðasviðs er jafnframt stjórnarformaður Hugvísindastofnunar. Auk hans sitja í stjórn fulltrúar frá aðildarstofnunum og fulltrúi stúdenta úr hópi nemenda í doktorsnámi við Hugvísindasvið.

Innan vébanda Hugvísindastofnunar er rannsóknaraðstaða sem stofnunin úthlutar gistikennurum, sérfræðingum, nýdoktorum og doktorsnemum, sem teljast þá styrkþegar Hugvísindastofnunar.

Aðild að Hugvísindastofnun eiga prófessorar, dósentar, lektorar (þ.m.t. erlendir sendikennarar) og aðjunktar við Hugvísindasvið, ásamt skrifstofufólki. Einnig aðrir sem stjórn veitir starfsaðstöðu, svo sem gistikennarar, sérfræðingar, nýdoktorar og doktorsnemar sem skráðir eru í nám á Hugvísindasviði.
 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is