Hugvísindaþing 2008

Hugvísindaþing 2008 var haldið dagana 4. og 5. apríl í Aðalbyggingu Háskólans. Að því stóðu Hugvísindastofnun og Guðfræðistofnun. Yfirskrift þingsins var „...fræðimenn búa til gátur“, sem er tilvitnun í Halldór Laxness (Íslendingaspjall).

Boðið var upp á fjölbreytta fyrirlestra á sviði hugvísinda, s.s. um íslenskar nútímabókmenntir, fornbókmenntir, bókmenntasögu og erlendar bókmenntir og menningu. Þá voru flutt fjölmörg erindi um íslenskt mál að fornu og nýju, Biblíuna, nafngjafir, stafsetningu, táknmál, nám erlendra mála og fræðigreinina sem fæst við nám annars máls o.fl. Haldin var sérstök málstofa um rannsóknarverkefnið „Tilbrigði í setningagerð“. Fræðimenn í heimspeki fjölluðu um efahyggju fornaldar til íslenskra miðalda og náttúruna í ljósi fyrirbærafræði og austrænnar heimspeki. Þá buðu sagnfræðingar upp á hlaðborð til heiðurs Gísla Gunnarssyni, prófessor sem lét af störfum sama ár. Málstofa um trú, menningu og samfélag spannaði allt frá fornleifum á Skriðuklaustri til austrænna áhrifa á trúarlíf á 20. öld. Loks stóð Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, fyrir málstofu um hlýnun jarðar.

 

DAGSKRÁ OG ÚTDRÁTTUR ÚR FYRIRLESTRUM (.pdf 265kb)

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is