Málþing Ritsins

Ritið, tímarit Hugvísindastofnunar, hefur frá upphafi tileinkað hvert hefti ákveðnu þema. Gjarna hefur málþing eða ráðstefna lagt grunninn að þemanu, ýmist hefur Hugvísindastofnun eða Ritið sjálft staðið fyrir málþingi eða hefti verið byggð á málþingum á vegum annarra. Einnig hafa verið haldnar málstofur á Hugvísindaþingi.

Málþingið „Sögur á tjaldi“ var haldið 28. apríl árið 2001 í Háskólabíói og var hluti af dagskrá í tilefni af viku bókarinnar. Að því stóðu Kvikmyndasjóður, Rithöfundasambandið og Félag íslenskra bókaútgefenda en Guðni Elísson sá um skipulagninguna. Greinar í fyrsta hefti Ritsins voru að stofni til fyrirlestrar frá þinginu og nefndist heftið Kvikmyndaaðlaganir.

Málþing um staðleysur á vegum Hugvísindastofnunar sem haldið var 9. febrúar 2002 var grunnur að heftinu Staðleysur sem kom út sama ár.

Málþingið „Sálgreining á Íslandi“ var haldið í Odda á vegum Hugvísindastofnunar 3. maí 2003 og var tileinkað prófessor emeritus Sigurjóni Björnssyni. Heftið Sálgreining sem út kom sama ár var að mestu byggt á málþinginu.

Í apríl árið 2004 gekkst Ritið fyrir málþingi undir yfirskriftinni „Hvert stefnir íslensk fornleifafræði?“ og var 2. tölublað þess árs, Fornleifafræði, byggt á þinginu.

Ritið hélt málþingið „Orð og mynd“ 5. febrúar árið 2005 til undirbúnings samnefndu hefti sem helgað var myndlist og sjónmenningu, með sérstakri áherslu á samband myndar og texta.

Dagana 2.-3. september árið 2005 stóð Hugvísindastofnun fyrir málþingi í Norræna húsinu sem bar yfirskriftina „Framúrstefna: Tilurð, saga og samtími“. Benedikt Hjartarson hafði veg og vanda af skipulagningu þingsins, sem síðar varð grunnur að heftinu Framúrstefna sem kom út 2006.

Á Hugvísindaþingi sem haldið var 9.-10. mars 2007 bauð Ritið upp á málstofuna „Innflytjendur“ og var hefti 2-3 árið 2007 helgað því efni.

Á Hugvísindaþingi sem haldið var 4.-5. apríl 2008 hélt Ritið málstofuna „Hlýnun og umhverfi“. Annað hefti Ritsins 2008 fjallaði um sama efni og ber heitið Hlýnun jarðar.

Á Hugvísindaþingi 13.-14. mars 2009 hélt Ritið málstofuna „Velferð og kreppa“ og lagði grunn að heftinu Eftir hrunið.

Þá var haldin málstofa á Hugvísindaþingi 2010 sem bar yfirskriftina „Gagnrýnið háskólasamfélag? Ábyrgð og hlutverk háskóla á breytingatímum“. Á afmælisári Háskólans, 2011, kom út hefti um háskóla.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is