Rannsóknir í hugvísindum

Hugvísindum er ekkert mannlegt óviðkomandi. Þau fást við manninn og hvernig hann ljær tilveru sinni merkingu með hugarstarfi sínu. Rannsóknir í hugvísindum eru tilraunir til að efla skilning okkar á manninum, sambandi hans við umhverfið, guðdóminn og sjálfan sig í fortíð og nútíð og þar með gera okkur færari til að takast á við samtímann og framtíðina. Án rannsókna verður engin ný þekking til. Án nýrrar þekkingar stendur háskólastarf ekki undir nafni og án nýrrar þekkingar væru hugvísindin fáum til gagns.

Hugvísindi eru ekki skýrt afmörkuð frá öðrum vísindum og ræðst skilgreiningin að nokkru leyti af skipulagi hvers háskóla. 

Við Hugvísindasvið eru stundaðar rannsóknir í öllum kennslugreinum sviðsins, þ.e. í bókmenntum, kvikmyndafræði, listfræði, menningarfræði og miðaldafræði, erlendum tungumálum og þýðingafræði, guðfræði og trúarbragðafræði, heimspeki, málvísindum, fornleifafræði og sagnfræði. Ýmsar aðrar greinar, eins og þjóðfræði, mannfræði og sálfræði, eru á mörkum hug- og félagsvísinda og í raun bara söguleg hending hvar þær lenda í deildaskiptingu háskóla. Við Háskóla Íslands falla þær innan Félagsvísindasviðs og Heilbrigðisvísindasviðs og þá um leið rannsóknirnar.

 

    Deila: 
    Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is